Ósýnileiki kvenna í grafískri hönnun á Íslandi
Sigrún Karls Kristínardóttir, nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands hefur undanfarnar vikur verið með umfjallanir og viðtöl í Stundinni undir yfirskriftinni Ósýnileiki kvenna í grafískri hönnun á Íslandi. Verkefnið er stutt af Nýsköpunarsjóði námsmanna en fyrirlestur hjá Goddi í náminu var kveikjan að verkefninu.
„Síðastliðin vetur hélt Goddur fyrirlestur í áfanga um konurnar sem ruddu brautina hérlendis á sviði grafískrar hönnunar. Þar kom meðal annars fram að fyrstu Íslendingarnir sem menntuðu sig í faginu voru þær Ágústa P. Snæland og Helga Markúsdóttir. Ég var mjög undrandi að hafa aldrei heyrt á þessar konur minnst sem vakti hjá mér forvitni og áttaði ég mig á því að ég vissi lítið sem ekkert um sögu kvenna í grafískri hönnun á Íslandi. Mér fannst ég hafa vera svikin um mikilvæga fræðslu en við nánari athugun kom í ljós að upplýsingar voru ekki endilega til staðar. Það hefur lítið sem ekkert verið fjallað um konur á sviði grafískrar hönnunar í sögulegu samhengi á Íslandi,“ segir Sigrún sem í kjölfarið sótti um styrk fyrir verkefninu hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna og nú hafa viðtöl og umfjallanir undir þessari yfirskrift birts í Stundinni.
Markmið verkefnisins var að vekja athygli á konum á sviði grafískrar hönnunar, þeirra framlagi og fá innsýn í stöðu kvenna í faginu.
„Sem verðandi grafískur hönnuður hefur staða kvenna í bransanum verið mér hugleikin. Kannanir undanfarin ár sýna að það hallar á konur í auglýsingabransanum. Karlar eru í miklum meirihluta á stofunum og konur eru ólíklegri til þess að rata í stjórnunarstöður. Það var áhugavert að því yngri sem viðmælendur mínir voru, þeim mun frekar upplifðu þær kynjaójafnvægi, en það er auðvitað margt sem hefur áhrif í því samhengi. Það er ekki hægt að heimfæra tíðaranda nútímans aftur í tímann og það hefur margt breyst.“
Sigrúnu þótti vandasamt að velja viðmælendur enda margar krafmiklar og hæfileikaríkar konur sem starfa á þessu sviði hönnunar á Íslandi.
„Ég fór í rannsóknarvinnu en óskaði líka eftir tillögum í Grapíku hópnum á Facebook. Allir viðmælendur mínir eiga það þó sameiginlegt að hafa gegnt stjórnunarstöðum í auglýsingabransanum. Mér datt Rósa Hrund (innsk. Kristjánsdóttir) á Hvíta húsinu strax í hug. Ég kynntist henni þegar hún kenndi mér í skólanum síðasta haust. Rósa er mjög góður kennari, klár og drífandi manneskja. Mér fannst ég læra svo margt á stuttum tíma, sérstaklega hvað varðar hugmyndavinnu. Hún lét okkur í bekknum til dæmis skrifa niður lélegar hugmyndir og standa í hring og öskra hvert á annað. Þetta var mjög krefjandi en á sama tíma ótrúlega skemmtilegur og lærdómsríkur áfangi.
Ég vissi af Kristínu Þorkelsdóttur vegna þess að hún er fjölskylduvinur. Það hitti svo vel á að sýningin sem spannar feril hennar opnaði á HönnunarMars skömmu áður en verkefnið byrjaði. Sýningin er stórbrotin og sérlega skemmtileg fyrir fortíðardýrkendur. Ég fékk tækifæri til að hitta Kristínu á Hönnunarsafninu og hún leiddi mig í gegnum sýninguna sem var mikill heiður. Kristín er mikill listamaður og náttúrulega algjör brautryðjandi í grafískri hönnun á Íslandi, svo er hún líka svo hlý og yndisleg manneskja.
Mér var bent á Elísabetu Cochran eða Lissý úr ýmsum áttum. Eftir að ég gróf upp gamalt viðtal við hana þá vissi ég að mig langaði að hitta hana. Það reyndist þó frekar erfitt að hafa uppi á henni. Ég þurfti að setja á mig spæjarahattinn til þess að hafa uppi á henni. Hún er hvorki á samfélagsmiðlum né í símaskránni. Þess vegna var það mjög kómískt þegar ég loksins náði í hana að við værum með vinnuaðstöðu í sama húsi í Austurstrætinu. Lissý er mögulega mesti töffari Íslands, ásamt því að vera hönnuður á heimsmælikvarða.
Það gaf augaleið að Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs yrði hluti af umfjölluninni. Hún hefur verið leiðandi í umræðum um mikilvægi hönnunar hér á landi og á mjög farsælan feril að baki sem grafískur hönnuður og stjórnandi í auglýsingabransanum. Það var mjög gaman að heyra hennar sögu, sérstaklega um fyrstu skref eftir útskrift. Það fyllti ungan verðandi hönnuð miklum eldmóði.“
Sigrún segir það hafi í raun verið mikinn lúxus fyrir hana sem nema í grafískri hönnun að fá tækifæri til að hitta þessa hönnuði og fjalla um þeirra verk.
„Það er ómetanleg reynsla og mjög gott veganesti fyrir síðasta árið í skólanum. Ég hefði viljað taka miklu fleiri viðtöl enda af nógu að taka en tíminn var fljótur að líða og allt í einu komið haust. Það á eftir að birtast viðtalið við Kristínu Þorkelsdóttur en það verður gert von bráðar.“