Framúrskarandi fögnuður á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023
Það var mikið um dýrðir í Grósku þann 9. nóvember þegar Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent með pompi og pragt. Dagurinn hófst á því að gestir fengu góða innsýn inn í þau níu framúrskarandi og fjölbreyttu verkefni sem tilnefnd voru til verðlaunanna í ár í þremur mismunandi flokkum. Í kjölfarið var svo verðlaunaafhending með tilheyrandi fögnuði.
Það voru þau Sunnefa Gunnarsdóttir, arkitekt og Logi Pedro, vöruhönnuður sem stýrðu samtali við tilnefnda og sáu svo um að kynna verðlaunaafhendinguna sem fór fram fyrir fullum sal.
Sigurvegara verðlaunanna í ár voru Angústúra bókaforlag sem hlaut viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun, Sigrún Guðjónsdóttir „Rúna“, leirlistakona semr er Heiðursverðlaunahafi ársins, Loftpúðinn eftir Fléttu fyrir Fólk Reykjavík er Vara ársins, Edda, hús íslenskunnar eftir Hornsteinar arkitekta er Staður ársins og Pítsastund eftir Fléttu og Ýrúrarí er Verk ársins
Hönnunarverðlaun Íslands fóru fram í tíunda sinn í ár að því tilefni voru verðlaunin stækkuð og veitt í þremur flokkum - Vara - Staður - Verk. Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Grósku.
Við óskum tilnefndum aðilum og sigurvegurunum innilega til hamingju og þökkum gestum kærlega fyrir komuna!
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá deginum frá Elísabetu Blöndal, ljósmyndara.