Fyrirlestrar um Högnu Sigurðardóttur í mars
Í tilefni af skráningu á verkum Högnu Sigurðardóttur arkitekts (1929-2017) heldur Hönnunarsafn Íslands þrjá spennandi fyrirlestra í mars.
Sætaframboð er takmarkað og því er best að tryggja sér miða sem fyrst. Miðar eru seldir á tix.is og eru hlekkur á miðasölu við hvern og einn fyrirlestur hér fyrir neðan.
***
Sunnudaginn 6. mars
Fyrirlesari: Pétur Ármannsson, arkitekt
Pétur hafði milligöngu um það að fjölskylda Högnu færði Hönnunarsafni Íslands teikningarnar að gjöf.
***
Þriðjudaginn 8. mars
Rútstún - Sundlaugar og almenningsgarður í Kópavogi
Fyrirlesari: Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt
Um er að ræða eitt af fyrstu verkum Högnu eftir útskrift hennar frá byggingarlistadeild École Nationale Supérieure des Beaux-Arts í París vorið 1960. Henni var falið verkið af þáverandi bæjarstjóra Kópavogs, frú Huldu Jakobsdóttur, sem ánafnaði bæjarfélaginu lóðina með þeim skilyrðum að þar yrðu bæði laugar og almenningsgarður fyrir bæjarbúa. Verkið var ekki byggt nema að litlum hluta og Högnu seinna falið að hanna aðra tillögu að Kópavogslaug (1985-91) sem enn stendur, þó í breyttri mynd sé.
Guja Dögg Hauksdóttir er arkitekt cand.Arch frá Aarhus School of Architecture árið 1994. Frá útskrift hefur hún unnið með byggingingarlist á breiðum grundvelli rannsókna, þróunarstarfs og miðlunar á margvíslegu formi.
Rannsóknarverkefni Guju Daggar á ævistarfi Högnu Sigurðardóttur arkitekts hófst vorið 2009, í fyrstu sem undirbúningur fyrir sýningu hennar á verkum Högnu á Kjarvalsstöðum - með áherslu á verk hennar á Íslandi - og síðan sem viðamikil rannsókn á verkum hennar - hér og í Frakklandi - í stærra samhengi ljóðræns módernisma í byggingarlist, sem hún er nú að vinna til útgáfu bókar.
***
Þriðjudaginn 22. mars
Kassinn í París - Ferlið og skráning á teikningum Högnu og það sem kom í ljós
Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir og Hrefna Björg Þorsteinsdóttir, arkitektar
Arkitektastofan Arkibúllan hefur séð um að mynda og forskrá verkin í samstarfi við safnið, en þær Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir og Hrefna Björg Þorsteinsdóttir, stofnendur stofunnar, þekktu Högnu vel.
Högna var fædd í Vestmannaeyjum árið 1929. Hún stundaði nám við École nationale supérieure des Beaux-Arts í París á árunum 1949-1960. Hún hlaut viðurkenningu fyrir besta útskriftarverkefni skólans fyrir hugmynd sína að Garðyrkjubýli í Hveragerði. Fimm einbýlishús sem hún hannaði voru reist á 7. áratugnum og eru þau verðmæt fyrir íslenska byggingarlistasögu 20. aldar. Þekktast þeirra er Bakkaflöt 1 í Garðabæ. Húsið var valið eitt af 100 merkustu byggingum 20. aldar í norður- og miðhluta Evrópu í útgáfu alþjóðlegs yfirlitsrits um byggingarlist. Högna hannaði einnig Kópavogslaug og svæðið í kringum hana en einungis hluti af því verkefni varða að veruleika.
Högna var fyrsta konan í stétt arkitekta til að teikna hús á Íslandi. Hún bjó og starfaði lengst af í Frakklandi.