- English
- Íslenska
Fyrirspurnir og svör-Samkeppni um nýjan samþættan leik - og grunnskóla í Vogabyggð
Samkeppni um nýjan samþættan leik - og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöð, nýja göngu– og hjólabrú í Vogabyggð, er tveggja þrepa samkeppni. Í fyrra þrepi er einn fyrirspurnartími. Skilafrestur fyrirspurna var 6. júní sl. Dómnefnd áætlaði að þau myndu svara fyrirspurnum þann 13. júní næstkomandi. Dómnefnd hefur nú tekið saman spurningar og svör við fyrirspurnum og birtast þau nú, 9. júní.
1. Við köllum eftir upplýsingum um hvaða viðmið eru í gildi varðandi fjarlægðir mannvirkja við strandlínu Fleyvangs; samkeppnissvæðið.
Svar:
Ekki eru í gildi nein viðmið varðandi fjarlægðir við strandlínu í skólahúsnæði. Huga þarf þó að almannarétti varðandi aðgengi að sjó, vötnum og ám. Gæta þarf sérstaklega að afmörkuðu svæði fyrir yngstu börnin á svæðinu.
---
2. Er skólinn ætlaður börnum úr Vogabyggð eða er einning gert ráð fyrir börnum úr Ártúnsholti, eða öðrum nærliggjandi hverfum? Vinsamlega gerið nánari grein fyrir hvaðan börnin koma og hvernig þau ferðast í og úr skóla, í öllum aldursflokkum, s.s. í bíl, gangandi, á hjóli eða með almenningssamgöngum. Hversu stórt hlutfall barna er áætlað að ferðist í bíl, á hjóli, gangandi eða með almenningssamgöngum?
Svar:
Leikskólabörn geta komið alls staðar að úr borginni en gert er ráð fyrir að þau komi helst úr nærliggjandi hverfum, þá sérstaklega Vogabyggð. Skólaakstur leikskólabarna verður vegna vettvangsferða.
Grunnskólinn er hverfisskóli fyrir Vogabyggð en nemendur geta komið annars staðar frá og er ekki gert ráð fyrir skólaakstri vegna þeirra. Í framtíðinni er gert ráð fyrir að hverfisskólar rísi í Elliðaárvogi og Ártúnshöfða. Vegna annarrar uppbyggingar á Elliðaársvæðinu og Höfða gæti komið til þess að skólinn þjóni að einhverju marki grunnskólanemendum af þeim svæðum þar til að hverfisskólar þar eru risnir. Ekki er gert ráð fyrir skólaakstri vegna þeirra. Skólaakstur verður frá skólanum vegna sundferða og vettvangsferða.
Fyrirfram er ekki hægt að segja með vissu um hve mörg börn munu koma hjólandi eða gangandi í skólann. Mælingar hafa verið gerða hjá starfandi grunnskólum og eru niðurstöður mjög mismunandi eftir staðsetningu skólanna og aðgengi barna til að koma í skólann á hjóli eða gangandi. Þá skiptir einnig máli hversu vel er gert ráð fyrir því að börn geti komið á hjóli í skólann og gangandi með aðstöðu í skólanum til geymslu á hjólum.[ÓSV1] Leiðir til og frá skóla skipta þar verulega miklu máli m.t.t. öryggi á göngu- og hjólaleiðum til og frá skóla. Forgangur þjónustu á göngu- og hjólaleiðum mun skipta miklu máli sérstaklega yfir vetrartímann.
Nú er að ljúka uppsetningu á hjólastæðum fyrir að minnsta kosti 20% nemenda við hvern skóla við grunnskóla borgarinnar. Reynslan hefur sýnt að þegar aðstæður til geymslu á hjólum og öðrum sambærilegum farartækjum er til staðar þá fjölgar þeim sem koma á hjóli. Laugarnesskóli, Langholtsskóli, Fossvogsskóli og Hlíðaskóli eru skólar sem skera sig úr með fjölda nemenda sem mæta í skólann á hjóli. Yfir 90% nemenda í Breiðholtsskóla ganga eða hjóla í skólann vegna sérstöðu skólans m.t.t. staðsetningu hans.
---
3. Mikilvægar upplýsingar sem okkur langar að koma á framfæri í forvali henta ekki umbeðnum kvörðum. Er leyfilegt að víkja frá 1:2.500 og 1:1.000 við gerð skýringarmynda?
Svar:
Í keppnislýsingu stendur að skila eigi eftirfarandi:
Afstöðumynd 1:2500 með aðliggjandi byggð og tengingum við þau svæði.
Skýringamyndir 1:1000 sem sýnir nálgun verks, hugmyndafræði, skipulag, innra og ytra flæðirit, og kvarða. Aðalaðkoma, staðsetning brúar og bygginga, tengingu inni í byggingu, á milli, úti og innisvæða.
Skýringarmyndum (aðalhugmynd) skal skila í þeim kvarða sem kveðið er á um í keppnislýsingu - heimilt er að bæta við skýringarmyndum í öðrum kvarða , svo framarlega sem þær rúmast á leyfilegum blaðafjölda
---
4. Vinsamlegast gefið upp sundurliðaðan áætlaðan byggingarkostnað fyrir mannvirkin í samkeppni, að meðtaldri brú, skólalóð og almenningssvæði.
Svar:
Ekki er talið nauðsynlegt að þessar upplýsingar liggi fyrir á samkeppnisstigi
---
5. Er gert ráð fyrir að hluti af eða öll mannvirki í samkeppni verði vottuð, að með taldri brú?
Svar:
Já, gert er ráð fyrir vottun mannvirkja en það er ekki hluti af samkeppninni á þessu stigi.
---
6. Er gert ráð fyrir að 500 orða greinargerð sé hluti af 3 x A3 örkum eða er mögulegt að senda hana inn á sér blaði?
Svar:
500 orða greinargerð skal vera hluti af 3 x A3 örkum
---
7. Ekki er fjallað mikið um hönnunarforsendur fyrir hjóla- og göngubrú miðað við grunnskólann og starfsemi honum tengdum. Hvaða viðmið gilda t.d. um landmótun og / eða landfyllingu í voginum til að minnka spanið á burðarvirki, sem gæti leitt hagkvæmra lausna, minni efnisnotkunar og byggingarkostnaðar? Hvað er leyfilegt í þessu sambandi, og hvað ekki?
Svar:
Samkeppni er leið til að opna fyrir vel rökstuddar, nýjar og ferskar hugmyndir og lausnir fyrir skólabyggingu, lóð og brú.
Samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir því að loka voginum vegna náttúruverndarsjónarmiða. Bent er á að óskað er eftir heildstæðri og áhugaverðri nálgun á verkefninu með góðri tengingu á milli íbúðabyggðar og skólamannvirkja.
---
8. Er mögulegt að hækka yfirborð á skólalóð, og ef svo er, hversu mikið?
Svar:
Samkeppni er leið til að opna fyrir vel rökstuddar, nýjar og ferskar hugmyndir og lausnir fyrir skólabyggingu, lóð og brú. Mótun skólalóðar er hluti af samkeppninni, þar sem leitað er að sem áhugarverðastri lausn á verkefninu.
---
9. Hvaða hugmyndir liggja fyrir um Vörputorg, m.t.t. umferðarflæðis, hönnunar yfirborðs, starfsemi á torginu, listaverk, götugagna ofl.?
Svar:
Hönnun Vörputorgs mun ekki hefjast fyrr en fyrir liggur hvernig brúin verður. Einu hönnunarforsendurnar sem liggja fyrir eru í Almennri greinargerð og skilmálum fyrir innviði, sem fylgir deiliskipulagsáætlunum fyrir Vogabyggð, svæði 1 og 2.
Bent er á að hönnun Vörputorgs er utan samkeppnissvæðisins.
---
10. Kallað er eftir nánari skýringu á afmörkun skipulagssvæðis. Bílastæði við smábátahöfn eru t.d. ekki hluti af samkeppnissvæðinu. Er þá rétt áætlað að bílastæði sé ekki opin starfsfólki skólans, foreldrum, eða öðrum notendum hússins? Hver er eigandi bílastæðaplans, og eru þau aðgangsstýrð? Sama gildir um skrúðgarð, hvert er hlutverk hans á svæðinu, og hverjum er hann ætlaður?
Svar:
Lóðir smábátahafnarinnar og Veitna eru utan samkeppnissvæðis. Ekki er hægt að gera ráð fyrir almennri notkun á þeim lóðum, þ.m.t. notkun bílastæða. Afmörkun samkeppnissvæðisins er almennt opið, enda möguleikar margir, en mælt er með að keppendur haldi sig frekar inna afmörkun deiliskipulags fyrir Vogabyggð svæði 5.
Ekki hefur verið tekin önnur afstaða til fjölda og gerð bílastæða að öðru leiti en það sem fram kemur í gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 og gildandi bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar.
Í samkeppnislýsingu eða gildandi deiliskipulagi er hvergi fjallað um skrúðgarð. Líklega er verið að spyrja um skilgreiningu Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 um „hverfisgarð“.
Um hverfisgarða er fjallað á bls. 106 í greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur 2040. Samkeppnislýsing, gildandi deiliskipulag og Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 útiloka alls ekki skrúðgarð á svæðinu né gerir kröfu um slíkt.
Í samkeppnislýsingu er kallað eftir hönnun skólalóðar og almenningsrýma á svæðinu.
---
11. Helgunarsvæði holræsis á deiliskipulagsuppdrætti sker byggingarreit skólans í tvennt. Er kvöð til þátttakenda að taka mið af þessum lögnum, eða er mögulegt að færa þær til og samræma hönnunartillögu, svo að betri heildarútkoma fáist?
Svar:
Ekki er mögulegt að hliðra skólplögn
Í greinargerð deiliskipulagsins, kafla 8.2 um stofnlagnir fráveitukerfis og skólpstöð segir eftirfarandi. „Stofnlagnir fráveitukerfis liggja um skipulagssvæðið. Afmarkað er helgunarsvæði skólplagna á deiliskipulagsuppdrætti og skýringarmynd „Stofnlagnir fráveitukerfi Skólpdælustöð“. Á lóðum skóla og athafnasvæðið smábátahafnar er kvöðum graftrarrétt og helgunarsvæði stofnlagnar fráveitukerfis, þar er ekki heimilt að reisa byggingar.“
Lögnin er mikilvægur hluti núverandi innviða Reykjavíkur og mjög kostnaðarsamt og tímafrekt að breyta henni. Af þeirri ástæðu er ekki reiknað með að hún verði færð eða heimilt að byggja á eða yfir helgunar- og graftrarsvæði þar sem hún liggur.
---
12. Með tilliti til nafnleyndar í 1. og 2. þrepi, hvernig hyggst dómnefnd tryggja við val á þátttakendum, að þeir hafi nauðsynlega lágmarkshæfni og reynslu til að takast á við jafn umfangsmikið og sértækt verkefni, þar með talið brúarhönnun?
Svar:
Meginreglan varðandi hæfi keppenda er sú að þeir sjálfir beri ábyrgð á hæfi sínu.
Í áframhaldandi hönnun koma að aðrir ráðgjafar sem valdir verða á grundvelli útboðs- þar á meðal verða burðarþolshönnuðir sem tryggja farsælan framgang verkefnisins. Kröfur til meðhönnuða verða skilgreindar í útboðsgögnum
---
13. Vinsamlega nefnið þrjá bestu leik- og grunnskóla landsins m.t.t. framúrskarandi hönnunar, sem að mati dómnefndar eru verðug viðmið og endurspegla áherslur 1. þrepi keppninnar.
Svar:
Markmið samkeppninnar er ekki endilega að endurtaka það sem þegar hefur verið gert heldur er leitað eftir vel rökstuddum, nýjum og ferskum hugmyndum og lausnum.
---
14. Er fyrirliggjandi hugmyndir um útikennslustofu fyrir leikskóla og yngsta stig grunnskóla og hvernig tengist hún áfangaskiptingu uppbyggingar?
Svar:
Gert er ráð fyrir að útikennslustofu verði hægt að nýta í 1. áfanga – það er þó ekki skilyrt. Svæðið býður vel upp á það að hafa útikennslustofu en slík aðstaða hefur verið jákvæð viðbót í starfsemi leikskóla og grunnskóla.
---
15. Í kafla 6.5, Gróður og landmótun á brúnum brúar, er ástæða fyrir því að gróður sé nefndur sérstaklega á köntunum? Er mögulegt að koma fyrir gróðri annarsstaðar á brúnni?
Svar:
Já, það er vel hægt.
---
16. Eru sérstakar kröfur um öryggi barna varðandi notkun þakgarða, til dæmis, að ekki sé æskilegt að börn á ákveðnum aldri hafi aðgang að þakgörðum?
Svar:
Notkun þakgarða fyrir börn og nemendur í leikskólum og skólum er þekkt en gæta þarf að öryggi þegar að kemur að nýtingu þeirra.