Grafíski hönnuðurinn Viktor Weisshappel Vilhjálmsson valinn bjartasta von Evrópu
Viktor Weisshappel Vilhjálmsson var valinn bjartasta von Evrópu (e. Young Creative European of the year) fyrir verkefni sitt Útmeða sem var unnið fyrir Rauða kross Íslands og Geðhjálp á Art Directors Club of Europe hátíðinni í Barcelona um helgina. Auk þess fékk verkefnið silfurverðlaun í flokknum grafísk hönnun.
Verkefnið snýst um að taka orð yfir ástand eða tilfinningar sem fólk á til að fela, setja á peysu og bera með stolti. Alls eru 11 útgáfur af bótum með hugtökum á borð við kvíði, reiði, þunglyndi og seigla í boði en hægt er að kaupa eins margar bætur og hver vill og raða þeim á að vild.
Viktor Weisshappel útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2015. Að námi loknu vann hann bæði á stofum hérlendis og í Stokkhólmi, ásamt því að vinna í eigin verkefnum tilhliðar. Í byrjun árs 2017 hóf hann störf hjá J&L og hefur verið hjá þeim síðan. Nú eru þeir Viktor og Albert Muñoz frá J&L að opna eigin stofu sem ber nafnið Ulysses. Þeir sérhæfa sig í mörkun með það að markmiði að framkvæma djarfar hugmyndir og skapa grípandi ásýnd fyrir viðskiptavini sína.
Félag íslenskra teiknara er aðili að ADC*E og heldur utan um þátttöku Íslands í keppninni, auk þess að standa fyrir FÍT keppninni ár hvert. Verðlaunin endurspegla allt það besta í grafískri hönnun á hverjum tíma en verðlaunaverk hvers lands eru send í keppnina sem eru svo dæmd af 60 fagaðilum alls staðar að úr Evrópu.