Guðmundur Lúðvík til umfjöllunar hjá Mohd Magazine
Húsgagnahönnuðurinn Guðmundur Lúðvík segir frá starfi sínu sem hönnuður og nálgun sinni í hönnunarferlinu í viðtali við Mohd Magazine. Nýlegur afrakstur af samstarfi hans við danska hönnunarhúsið Carl Hansen & Søn er Timbur Outdoor Bench.
Guðmundur starfar í Danmörku og hannar oft fyrir fyrirtæki, þar sem þættir eins og gæði, fagurfræði og sjálfbærni eru í fyrirrúmi.
"Ég hef alltaf verið forvitinn að eðlisfari og haft þörf fyrir að skilja hvernig hlutir eru gerðir og hvernig þeir virka. Á ungaaldri þótti mér heillandi að skapa hluti með höndunum. Þetta var mín leið til að kanna og afla mér þekkingar á gæði efniviðar og eðlisfræðileg lögmál. Í skóla skorti mig einbeitingu og áhuga á bóklegu fögunum en teikning, listir og handverk var mín sterka hlið. Þar leiddist mér aldrei og ég skildi allt svo vel."
Guðmundur segir hugmyndina að Timbur Outdoor Bench hafa kviknað í miðjum Covid-faraldri þegar samskipti fólks voru takmörkuð. Ástandið veitti honum innblástur til að hanna stað til að deila með öðrum, nokkurs konar "boð til samskipta". Úr varð fallegur bekkur sem einkennist af þægindum, notagildi og löngum líftíma en Guðmundur leggur einmitt mikið upp úr þeim gildum í hönnun sinni.