Innsýn- Ólöf Rut Stefánsdóttir
Félag vöru- og iðnhönnuða hefur hafið framleiðslu á örþáttaröðinni Innsýn þar sem markmiðið er að sýna breidd félagsfólks. Þáttaröðin samanstendur af stuttum viðtalsklippum við ólíka hönnuði sem starfa í allskonar geirum og er miðlað á Instagramreikning félagsins. Hér er Ólöf Rut Stefánsdóttir, vöru-og motion hönnuður og stjórnanda hjá Ásmundarsal, þar sem hún stýrir til að mynda sýningarhaldi, upplifunum, kynningu og miðlun út á við.
Sólin skein inn um fjölmarga glugga á mikilfenglegu húsinu sem stendur við Freyjugötu í Reykjavík. Neðri hæðin iðar ávallt af lífi og stemningu en Ólöf bauð okkur uppá efri hæð hússins. Þar situr teymi Ásmundarsalar á fallegri skrifstofu, þar sem órans litur og viðburðarríkt dagatal þekur einn vegginn en gluggar annann. Við sátum lengi hjá Ólöfu enda margt að fara yfir. Þegar yfir lauk var orðið svo heitt, sólin skein beint inn um horn gluggann á skrifstofunni, að við héldum út í sumarið, fannst okkur.
Ólöf útskrifaðist með BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskólanum árið 2013 og Diploma í Motion Creative frá Hyper Island árið 2019. Síðustu 10 ár hefur hún starfað í fjölbreyttum menningartengdum verkefnum á borð við Hönnunarsjóð, HönnunarMars, Dag Íslenskrar Tónlistar og Reykjavík Art Book Fair. Hún sagðist oft hafa verið titluð sem þúsund þjala smiður í sínum störfum en hefur fengist við allt frá upplifunarhönnun til sýningarstjórnar og stíliseringar.
“Það er gott að vera með góða þekkingu á efnum og aðferðum, gott að vera með góða verkfærakistu sem reynist manni vel í starfi.”
Aðspurð hvort hönnunar grunnurinn nýtist henni í starfi talar hún um að hönnun snúist auðvitað í grunninn um að finna lausnir og það geri þau daglega í Ásmundarsal. Enda eru þar ávallt nýjar og nýjar áskoranir á bak við hverja sýningu og þá sé gott að vera með góða þekkingu á efnum og aðferðum og að vera með góða verkfærakistu sem reynist manni vel í starfi.
Þar sem styttist í HönnunarMars og við vorum að fara að hittast í Ásmundarsal sem hefur síðustu ár verið ómissandi staðsetning á hátíðinni varð okkur hugsað til bilsins á milli hönnunar og myndlistar og hvernig sé að vinna með fólki úr báðum geirum. Ólöf segist ekki finna fyrir miklum mun á milli þess; “Ég skil ekki alveg þetta mikla bil sem er á milli þessara tveggja heima því að öll erum við að vinna eftir svipuðum aðferðum. Hönnuðir eru kannski meira að fylgja ferlum á meðan myndlistamenn eru í flæði.”
“Hönnun er náttúrulega óhjákvæmilegur partur af öllum sýningum. En það að sýna hönnun gefur manni tækifæri á að kafa miklu dýpra.”
Í kjölfarið ræðum við um sýningar sem miðill fyrir hönnun. Ólöf segir að í fyrsta lagi sé hönnun óhjákvæmilegur partur af öllum sýningum. En það að sýna hönnun gefi manni tækifæri á að kafa miklu dýpra. Á HönnunarMars 2020 hannaði Ólöf sýningu með Genki Instruments en hún minntist á mikilvægi þess að geta sýnt á bak við ferli vörunnar Wave Ring í sýningunni. Hún segir að þá hafi gestir getað séð hvar hugmyndin byrjaði, allar skissurnar, prótótýpurnar og svo gátu gestir að endingu fengið að prufa lokaútkomuna. Ólöf talar um að með því að setja hönnunarvöru upp á sýningu á þennan hátt öðlist maður mun betri skilning á henni heldur en að maður hefði bara séð henni stillt upp út í búð.
Innsýn er nýr liður hjá félagi vöru-og iðnhönnuða en félagið hefur um nokkurt skeið glímt við það vandamál að nafn félagsins nær ekki utan breidd félagsfólks. Á tímabili voru ræddar nafnabreytingar á borð við félag hönnuða en stígur það óhjákvæmilega á tær annarra félaga. Í stað nafnabreytingar hefur félagið því ákveðið að hrinda Innsýn af stað sem lausn við þessu vandamáli.
Samfélagsmiðlanefnd félagsins heimsækir í Innsýn félagsfólk sem öll hafa lokið hönnunarnámi en fara svo sínar leiðir, öll eiga það þó sameiginlegt að nýta hönnun í margbrotnu starfi en í vor fáum við að kynnast því betur.