Opið kall - FLEY, samsýning nýútskrifaðra og upprennandi hönnuða
Félag vöru-og iðnhönnuða stendur nú fyrir opnu kalli á verkum fyrir sýninguna FLEY sem haldin verður í fyrsta skipti á HönnunarMars í apríl. FLEY er samsýning nýútskrifaðra og upprennandi hönnuða!
Félagið óskar eftir verkum hönnuða sem útskrifast hafa úr hönnunarnámi árið 2020 eða síðar og eru meðlimir félagsins. Eru þetta allt árgangar sem stunduðu nám í heimsfaraldri og misstu jafnvel sumir af tækifærinu að halda almennilega sýningu í kjölfar útskriftar, nú er kominn tími til að láta ljós þessa hóps skína! Þrátt fyrir að þetta eigi við um sýninguna að þessu sinni er hún almennt hugsuð sem lendingarpallur upprennandi hönnuða eftir útskrift og er ætlað að fleyta þeim áfram inn í íslenskt hönnunarlíf. Engar hömlur eru settar á útlit eða miðil verkanna og vonast félagið eftir fjölbreyttum verkum sem varpa munu ljósi á framtíð íslenskrar hönnunar.
Umsóknarfrestur í FLEY er þann 8. mars nk. klukkan 23:59 og skal umsókn berast nafnlaust á netfangið voruhonnun@honnunarmidstod.is.
Félagið hefur áður staðið fyrir samsýningum hönnuða á HönnunarMars en á árunum 2021-23 stóð það fyrir trilogíunni Verk: Hlutverk, Hugverk, Handverk. Þær sýningar voru með svipuðu sniði þar sem hugmyndir að öllum verkum voru sendar inn til félagsins, dómnefnd fór svo yfir innsendingarnar og raðaði saman framúrskarandi hópi hönnuða hverju sinni.
Nánari upplýsingar má nálgast á instagrammi félagsins @honnudir"