Hanna vörur í anda Ásmundar Sveinssonar
Fimm vöruhönnuðir hafa undirritað samstarfssaminga við Listasafn Reykjavíkur um hönnun á vörum til sölu í safnverslun Ásmundarsafns í anda Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara.
Þetta kemur fram á vef Listasafns Reykjavíkur.
Þetta eru þau Brynhildur Pálsdóttir, Friðrik Steinn Friðriksson, Björn Steinar Blumenstein, Tinna Gunnarsdóttir og Hanna Dís Whitehead.
Hönnuðirnir hafa átt gefandi og skemmtilega fundi með starfsfólki Listasafns Reykjavíkur og hafa þegar kynnt hugmyndir að vörum til framleiðslu fyrir safnið og vinna nú að nánari útfærslu þeirra.
Stefnt er að því að vörurnar líti dagsins ljós í nýrri safnverslun Ásmundarsafns snemma á næsta ári. Nú er unnið að endurbótum húsnæði Ásmundarsafns með það að markmiði að bæta aðstöðu fyrir gesti ásamt nauðsynlegu viðhaldi.