Hljóta tilnefningar til alþjóðlegra hönnunarverðlauna
Knattspyrnusamband Íslands og auglýsingastofan Brandenburg hafa hlotið tilnefningar til alþjóðlegu hönnunarverðlaunanna The One Show fyrir ásýnd íslensku landsliðanna í knattspyrnu.
The One Show eða Gyllti blýanturinn, eru meðal virtustu auglýsinga- og hönnunarverðlauna í heimi og hafa verið veitt í næstum 50 ár. Verkefni KSÍ er tilnefnt í flokki merkja (e. logos) annars vegar og hinsvegar ásýndar (e. brand identity).
Áður hefur verkefnið fengið hin virtu Clio verðlaun og tilnefningu til Epica verðlaunanna. Þá fékk verkefnið nýverið Lúðurinn í flokki mörkunar og silfurverðlaun hjá FÍT.
Á heimasíðu Brandenburg má lesa eftirfarandi upplýsingar um ásýndina:
Nýtt merki er tákn um óbilandi samstöðu, innblásið af arfleifð og mótandi sögu, sem fléttar saman landvættir Íslands á nútímalegan máta. Merkið er margslungið en skýrt og byggir á fyrri skjaldarmerkjum – en stendur eitt og sér sem auðkennandi tákn landsliða Íslands.
Nútímavörumerki þurfa að búa yfir sveigjanleika og geta aðlagað sig á fjölbreyttan hátt. Það sem gerir merkið enn sterkara er að vættirnar geta staðið stakar til þess að mynda heildarumgjörð í vissum tilfellum.