Hönnuðu Teninginn, verðlaunagrip Verkfræðingafélags Íslands
Narfi Þorsteinsson og Adrian Freyr Rodriquez eru hönnuðir Tengingsins, verðlaunagrip Verkfræðingafélags Íslands sem var veittur í fyrsta sinn á Degi verkfræðinnar. Hönnun griparins byggist á 13 teningum sem allir styðja við hvern annan.
Teningurinn er ný viðurkenning sem Verkfræðingafélag Íslands mun veita árlega verkefnum sem þykja skara fram úr á sviði verkfræði hér á landi. Adrian Freyr er verkfræðimenntaður hönnuður og Narfi myndlistarmaður og grafískur hönnuður. Við hönnun Teningsins horfðu þeir til tímabilsins þegar verkfræðin sem fag kom fyrst til íslands í kringum 1920 og vildu endurspegla það í myndlistarsögunni með vísan í konstrúktívista. Listamenn á borð við Gerði Helgadóttur veittu þeim mikinn innblástur. Samkvæmt konstrúktívistunum átti listin að endurspegla iðnað nútímans og þannig notfæra sér þá tækni sem aðgengilega væri hverju sinni.
Við hönnun og framleiðslu Teningsins var notast við stafræna þrívíddar teiknun, þrívíddarprentun, laserskurð og CNC fræsi. – eitthvað sem hefði ekki verið hægt að gera fyrr en á síðustu árum. Hönnunin byggir á þrettán teningum sem allir styðja við hvorn annan og snúast eftir formúlu Theódórusar, grísks stærðfræðings, eða svo kölluðum Theódórusar spírar. Markmið þeirra var að hanna skúlptúr sem yrði verkfræðilega áhugaverður þar sem stærðfræðiformúla væri nýtt til að búa til form eða geómetríu.
Hönnunarferlið hófst í janúar 2020 og hefur því spannað tæp tvö ár. Upphaflega átti að veita þau 28. mars 2020 en afhendingu Teningsins hefur ítrekað seinkað út af sóttvarnarreglum. Vegna þess voru veitt tvenn verðlaun í ár á Degi verkfræðinnar 22. október þar sem Teningarnir verða afhjúpuð í fyrsta sinn.
Hér í þessu myndbandi segja þeir frá hugmyndinni að baki Teningnum og gerð hans.
Fyrirtækið Carbfix hlaut Teninginn fyrir árið 2019 og Controlant fyrir árið 2020. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem tæknifræðingar og verkfræðingar vinna að.