„Hönnun er eitt af þessum verkefnum sem á sér hvorki upphaf né endi, hönnun snertir allt okkar umhverfi hvort sem er í stóru eða smáu“
Þann 6 júní síðastliðinn fór fram ársfundur Hönnunarmiðstöðvar ásamt því að úthlutun úr Hönnunarsjóði fór fram.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flutti ávarp á fundinum þar sem hún ítrekaði mikilvægi hönnunar í að takast á við þær áskoranir sem samfélagið og heimurinn allur stendur frammi fyrir nú. Þá kom hún inn á þá sterku tengingu milli nýsköpunar og hönnun. „Nýsköpun verður aldrei fullkomin nema með góðri hönnun.“
Fyrir áhugasama má hér lesa ávarp Þórdísar í heild sinni:
Kæru ársfundargestir!
Ég býst við því að á hverjum tíma finnist fólki að einmitt sá tímapunktur sé einstakur og skipti miklu um það hvernig mannkynssagan komi til með að þróast.
Þegar horft er í baksýnisspegil sögunnar sést hins vegar að þrátt fyrir að ákvarðanir sem teknar eru á hverjum tíma varði miklu um stundarhag - þá breyta þær sjaldnast umtalsverðu í hinu stóra samhengi hlutanna.
Þær áskoranir sem að við íbúar heimsins stöndum frammi fyrir nú í dag eru hins vegar af þeirri stærðargráðu - að það hvernig við tökumst á við þær og til hvaða ráða við grípum, skiptir sannarlega máli fyrir heimsbyggðina alla.
Hér er ég auðvitað að tala um loftslagsmál og hvaða aðgerðir þjóðir heimsins grípa til – til að sporna gegn hlýnun jarðar.
Einhver kann að spyrja sig af hverju ég sé að taka þetta mál upp, hér á ársfundi Hönnunarmiðstöðvar. Jú, heimurinn er að kalla eftir nýjum lausnum á nánast öllum sviðum mannlífsins. Ógnirnar eru vissulega margar og stórar – en um leið eru tækifærin líka óteljandi mörg, það er að segja ef okkur ber gæfa til að haga okkur af ábyrgð og við leggjum alla áherslu á að leita sjálfbærra lausna sem eru snjallari og umhverfisvænni en þær sem að við búum við í dag.
Þegar við bætist að fjórða iðnbyltingin er komin á fleygiferð, þá má öllum vera ljóst, að á einn eða annan hátt er nánast allt til endurskoðunar, endurmats - og endurhönnunar. Það segir sig sjálft að á þessari vegferð hlýtur hugmyndafræði, verklag og rödd hönnunar að skipta veigamiklu máli.
Við sjáum það um allt samfélagið hvernig þessar áherslur verða stöðugt sterkari og fyrirferðarmeiri. Ísland hefur sett sér metnaðarfyllri markmið en flestar þjóðir varðandi minni losun gróðurhúsalofttegunda - og það kallar á fjölbreyttar og margháttaðar aðgerðir. Bara sem dæmi um aðgerðir sem ýtt var úr vör í þessari viku þá kynntum við á vettvangi míns ráðuneytis í góðu samstarfi við önnur ráðuneyti, annars vegar átak til að hvetja ferðamenn til að drekka kranavatn og draga þar með úr notkun plastflaskna og hins vegar áætlun um orkuskipti í samgöngum og uppbyggingu innviða – með sérstaka áherslu á rafvæðingu ferðaþjónustunnar.
Þessi dæmi frá vikunni sem er að líða eru bara tvö dæmi af óteljandi mörgum sem stjórnvöld hafa nú þegar komið til framkvæmda eða þurfa að grípa til á komandi árum þannig að við náum markmiðum okkar. Margar þessara aðgerða kalla á að við þurfum á einhvern hátt að breyta venjum okkar og endurskoða hvernig við sem neytendur högum kaupum okkar á vöru og þjónustu.
Til að þessi verkefni gangi eftir eins og vonir standa til þá er það úrslitaatriði að neytendur fylki sér á bak við þau. Á þeirri vegferð skiptir öllu að nýja lausnin sé þannig úr garði gert að hún sé búin einhverjum þeim kostum sem gera hana ákjósanlegri en sú eldri. Hér þarf góðrar hönnunar við.
Kæru gestir
Hönnun er eitt af þessum verkefnum sem á sér hvorki upphaf né endi, hönnun snertir allt okkar umhverfi hvort sem er í stóru eða smáu.Þannig má segja að hönnun snerti öll þau svið sem mitt embætti nær yfir; þ.e. ferðamál, iðnað, orkuog nýsköpun. Þegar mér var svo falið tímabundið að stýra ráðuneyti dómsmála þá fékk ég frábæra innsýn í sköpunarheim hönnuða – í þetta skipti arkitekta – þegar að ég heimsótti Hæstarétt og fékk söguna alla varðandi framúrskarandi hönnun á því húsi. Það var nánast sama hvar borið var niður – í arkitektúrnum, litavali og efnismeðferð eru ótal vísanir í söguna og tilgang dómsins. Það er hreint magnað hvað góð og vel hugsuð hönnun getur dýpkað og bætt alla upplifun.
Endurskoðun hönnunarstefnu er fyrirliggjandi verkefni – og við sama tilefni á ársfundi Hönnunarmiðstöðvar í fyrra, sagði ég frá því að ný hönnunarstefna væri á lokametrunum. Þessir lokametrar hafa reynst drýgri en ráð var fyrir gert – ástæðan er sú að ég ákvað að ráðast í að gera nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Til að hafa allt í réttri röð þá væri rétt að nýsköpunarstefnan liti fyrst dagsins ljós og ný hönnunarstefna kæmi síðan í kjölfarið, enda sækir hún bæði frjómagn og styrk í nýsköpunarstefnuna.
Það er mín bjargfasta trú að öflug nýsköpunarstefna og sú stefnumörkun, markvissu aðgerðir og fítonskraftur sem henni er ætlað að leysa úr læðingi sé eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar. Okkar verkefni er að tryggja að Ísland verði áfram í hópi þeirra landa þar sem lífskjör og lífsgæði öll eru hvað best. Það gerum aðeins með framsýni og öflugri nýsköpun sem byggir á snjöllum og sjálfbærum lausnum sem eru í sátt við umhverfið.
Það er ekki lítil ábyrgð sem lögð er á fundarstjórann okkar hér í dag, hann Þórlind Kjartansson – en hann er í forsvari fyrir þeim hópi sem markvisst hefur unnið að mótun nýsköpunarstefnunnar síðustu mánuðina og mun skila fullbúnu verki á næstu vikum.
NÝSKÖPUN og HÖNNUN eru um margt eðlislík. Sköpun og leit að nýjum og betri lausnum eru lykilatriði í báðum tilvikum. Þess vegna eru þær nánast eins og systur sem bæta hvor aðra upp. Nýsköpun verður aldrei fullkomin nema með góðri hönnun.
Hönnunarmiðstöð hefur á undanförnum árum unnið þrekvirki í því að koma íslenskri hönnun á þann stall sem hún er í dag. En það er mikið verk óunnið - og þessi stallur er bara bráðabirgðastallur sem þarf að hækka og stækka og verða enn sjálfsagðari vettvangur samstarfs við atvinnulífið.
Ekkert gerist af sjálfu sér og Hönnunarmiðstöð hefur verið óþreytandi við að koma íslenskri hönnun á framfæri og Hönnunarsjóður hefur einnig gert fjölda hönnuða kleift að rannsaka, þróa, útfæra og framleiða en einnig að leita tækifæra í hinum stóra heimi.
Hönnunarmiðstöð og Hönnunarsjóður gegna mikilvægu hlutverki í því að auka veg og virðingu hönnunar - og þar með að opna augu jafnt fyrirtækja, stjórnvalda og almennings fyrir þeim samfélagslega ávinningi sem góð hönnun gefur af sér. Hér er ég bæði að tala um hönnun sem auðgar andann og kitlar fegurðarskynið – en kannski enn frekar sem snjallan bissness sem gefur nýsköpun vængi og tryggir fyrirtækjum arð og fólki eftirsóknarverð störf. Hér er sannarlega mikilvægt verk að vinna!
Það gleður mig því að tilkynna hér og nú að ég hef ákveðið að forgangsraða fjármunum þannig að á árinu 2020 bætast 15 mkr ofan á þær 20 mkr sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur lagt til Hönnunarmiðstöðvar. Þetta tilkynni ég hér þannig að Hönnunarmiðstöð og starfsfólk og stjórn geti gert áætlanir um hálfu ári fyrr en raunin var í fyrra. Áfram þurfum við að vinna að framtíðarfyrirkomulagi og það kallar á gott samtal.
Mig langar að lokum til að þakka stjórn og starfsfólki Hönnunarmiðstöðvar fyrir öflugt starf. Hér á eftir munum við samfagna þeim sem hljóta styrk úr Hönnunarsjóði. Megi starfsemi Hönnunarmiðstöðvar og Hönnunarsjóðs og alls hönnunarsamfélagsins halda áfram að blómstra.
Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs við ykkur öll!