Hönnun fyrir alla hlýtur styrk úr Barnamenningarsjóði
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við List fyrir alla hlýtur styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir verkefnið Hönnun fyrir alla - hönnuðir framtíðarinnar. Um er að ræða framleiðslu á stuttu og vönduðum þáttum, kennsluefni um hönnun og arkitektúr sem miðast að börnum og ungmennum.
Ljósi verður varpað á fjölbreytilegar greinar hönnunar og störf sem tengjast þeim með aðgengilegum og áhugaverðum hætti. Fjallað verður um allt frá arkitektúr til fatahönnunar, grafíska hönnun, yfir í húsgagnahönnun, vöruhönnun, stafræna hönnun og upplifunarhönnun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, tilkynntu í Hörpu í gær um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands. Alls fengu 37 verkefni styrk og nemur heildarfjárhæð styrkjanna 90 milljónum króna en alls bárust 113 umsóknir. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.
Markmið verkefnisins Hönnun fyrir alla - hönnuðir framtíðarinnar er að auka aðgengi kennara og nemenda í grunn- og framhaldsskólum landsins að vönduðu efni um hönnun og arkitektúr. Þar mun koma fram um hvað greinarnar snúast, hvernig greinarnar standa á Íslandi og hvaða tækifæri og störf greinarnar bjóða upp á. Efnið miðast að börnum og ungmennum þar sem áhersla verður lögð á að það sé áhugavert um leið og það skapar tækifæri fyrir kennara að fjalla um greinarnar og tengja við nærumhverfi nemenda, hvar sem þau búa.
Þáttunum verður miðlað á Listveitunni, vef List fyrir alla og á heimasíðu og miðlum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Fjallað verður um ólíkar hönnunargreinar svo sem fatahönnun, grafíska hönnun, vöruhönnun, auk ólík svið arkitektúrs sem snýr að skipulagi, byggingum, landslagi, innanhúss hönnun og húsgögnum. Einnig verða nýjar hönnunargreinar skoðaðar eins og stafræn hönnun, upplifunarhönnun og hönnunar stjórnun (Design management).
List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum.
Hugmyndin byggir á verkefni sem List fyrir alla hefur nú þegar unnið og snýst um að búa til þætti um kvikmyndalist og ólíkar greinar innan kvikmyndagerðar.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er hreyfiafl sjálfbærrar verðmætasköpunar sem byggir á hönnun og arkitektúr. Miðstöðin stuðlar að auknu samstarfi milli hönnuða og fyrirtækja og vinnur að því að efla hönnunardrifna nýsköpun sem mótandi afl í samfélagi og atvinnulífi framtíðar á Íslandi.
Við þökkum Barnamenningarsjóði kærlega fyrir og hlökkum til að hefjast handa í verkefninu Hönnun fyrir alla - hönnuðir framtíðarinnar.