HönnunarMars fyrir fjölskylduna
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 3. til 7. maí nk. og breiðir úr sér um alla borg. Rúmlega 100 sýningar og 120 viðburðir eru á dagskrá í ár og því ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi.
Er þú að leita að viðburðum sem henta fjölskyldum og börnum? Hér eru nokkrir þeirra.
Betri borg fyrir börn
Sýningin er upplifunarsýning þar sem gestir fá að skyggnast á bakvið tjöldin hjá Reykjavíkurborg í ferli þjónustuumbreytingar. Komdu að sjá hvernig áskoranir eru ávarpaðar, hvernig við vinnum með þær og setjum fram stafræna lausn sem bætir þjónustu borgarinnar við íbúa í verkefninu Betri borg fyrir börn.
Heimurinn heima
Skringilegasta fjölbýli Garðabæjar hefur risið: Það var skapað af fjórðu bekkingum í Garðbæ og nú flytja afar smáir íbúar saman á Pallinn í Hönnunarsafni Íslands. Sýningin tekur forskot á sæluna og heldur innflutningsboð 28. apríl kl. 18:00 - 19:30
Ígulker ÞYKJÓ
Kyrrðarrými ÞYKJÓ er griðarstaður fyrir börn og fjölskyldur þeirra í erilsömum samtíma. Þau skerma af umhverfið en hleypa inn birtu og hafa útsýni.Ígulker er fyrsta kyrrðarrýmið sem er hannað til að mæta aðstæðum utandyra í íslenskri veðráttu. Ígulkerið verður staðsett á Nýja torginu í Tryggvagötu, við mósaíkverk Gerðar Helgadóttur.
Krakkaklúbburinn Krummi / Hvernig er veðrið?
Við hugsum um síbreytilegt veður og könnum hvernig ljósið býr til liti með alls konar listrænum tilraunum! Skoðum líka verkið Glerregn eftir Rúrí. Viðburðurinn fer fram í Listasafni Íslands laugardaginn 6. maí frá kl. 14 til 16.
Ósýnilegt verður sýnilegt
Leyndardómar Veitna verða afhjúpaðir á nýrri sýningu í Elliðaárstöð. Gestir kynnast lífæðum samfélagsins og þeim lífsgæðum sem þær veita. Í Boðið upp á leiðsögn í nýrri sýningu í Heimili veitna þar sem hönnunarteymið Terta tekur á móti gestum og segir frá hönnun sýningarinnar og orkunni sem leynist innan veggja og undir gólfum. Í Gestastofu Elliðaárstöðvar verður kynnt nýtt fræðsluefni og mikilvægi hönnunar í námsefnisgerð dregin fram. Fjölskyldur fá tækifæri til að takast á við hönnunaráskorun í skemmtilegri sköpunarsmiðju sem tengist vatni. Á útisvæði Elliðaárstöðvar verður boðið upp á þátttökusmiðju þar sem gestir fá að upplifa vísindi og eðli náttúruaflanna í gegnum sirkuslistir. Allir viðburður fara fram sunnudaginn 7. maí.
ÞYKJÓ
ÞYKJÓ opnar sýningu á fjölbreyttum hönnunarvörum teymisins í Gerðarsafni ; allt frá búningum til húsgagna og upplifunarhönnunar fyrir börn. Laugardaginn 6. maí frá kl. 11 - 13 verður boðið upp á fjölskyldusmiðju.
Framtíðarbókasafn Reykjavíkur
Til stendur að umbreyta Borgarbókasafninu í Grófinni bæði að utan og innan á næstu misserum. Á HönnunarMars verður sýning sem gefur innsýn inn í það sem koma skal. Boðið verður upp á fjölda ólíkra viðburða í tengsum við sýninguna, m.a. RISA krítarsmiðju fyrir krakka sunnudaginn 7. maí frá kl. 14 til 16. Þar gefst börnum tækifæri til að kríta sitt eigið draumabókasafn.