HönnunarMars í Osló
HönnunarMars og sendiráð Íslands í höfuðborgum Norðurlandanna standa fyrir viðburðum í formi hlaðvarpa, sem tekin voru upp í aðdraganda HönnunarMars hátíðarinnar á Íslandi. Þátttakendur í Noregi voru þau Hannah Stoveland Blindheim og Vignir Freyr Helgason. Stjórnandi var Pétur Níelsson.
Markmiðið er að leiða saman hönnuði frá Íslandi og Norrænu höfuðborganna í áhugavert samtal um hönnun og arkitektúr og þar með skapa hátíðinni erlendan vettvang í samstarfi við sendiráðin og erlenda samstarfsaðila. Á tímum Covid og lokaðra landamæra er mikilvægt að efla samskipti og samtal þvert á landamæri og um leið vekja athygli erlendis á því sem er að gerast á HönnunarMars og í íslenskri hönnun.
Hlaðvörpin eru á ensku.
Hannah Stoveland Blindheim útskrifaðist frá Oslo school of Architecture í janúar 2019 og hefur síðan starfað sem arkitekt við KIMA KIMA architects í Oslo þar sem hún hefur unnið með fjölda verkefna tengt endurnýjun bygginga.
Vignir Freyr Helgason er íslenskur arkitekt með meistaragráðu frá The Royal Danish Academy of Fine Arts, School of Architecture (2010) og executive master’s degree in Architectural Heritage frá The Oslo School of Architecture and Design (2020). Frá árinu 2011 hefur Vignir starfað sem arkitekt og skipulagsfræðingur í Noregi og frá 2018 sem ráðgjafi hjá minjastofnun Noregs (Riksantikvaren) að verkefnum tengt arfleifð og þróun borga og staða auk þess sem hann hefur haldið fyrirlestra um m.a. endurgerð, umsköpun og sjálfbæra þróun eldri iðnaðarsvæða og -bygginga.
Pétur Níelsson er menntaður blaðamaður frá NLA University College í Noregi. Hann hefur unnið sem blaðamaður hjá ríkissjónvarpi Noregs, NRK, og fleiri fjölmiðlum, verið starfandi meðeigandi hjá ráðgjafafyrirtækinu Brainify og fjölmiðla- og samskiptaráðgjafi hjá Umhverfisflokknum í Ósló og hjá World Wildlife Fund (WWF) í Noregi.