HönnunarMars opnaði með sirkusstemmingu

HönnunarMars hátíðin var sett með pompi og prakt í gær í Hafnarhúsinu að viðstöddu fjölmenni. Sirkusþema ársins endurspeglaðist á opnuninni með skrúðgöngu úr Hörpu í Hafnarhúsið með Lúðrasveit Verkalýðsins í broddi fylkingar, Hringleikur voru með sirkusatriði ásamt taktföstum tónum frá FmBelfast dj setti.
Í ár býður dagskrá hátíðarinnar upp á gleði, forvitni og hugrekki með glæsilegum sýningum hönnuða og arkitekta víðsvegar um borgina.
Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og Helga Ólafsdóttir, stjórnandi HönnunarMars klipptu á borða og opnuðu þar sem hátíðina formlega, 16 árið í röð.
Næstu fimm daga er hátíð í bæ og því um að gera að kynna sér dagskrána, sem samanstendur af sýningum, opnunum, leiðsögnum, áhugaverðum samtölum og margt fleira.
Hér má sjá myndir frá opnuninni frá Aldísi Pálsdóttur, ljósmyndara







