Hraunmyndanir / Lavaforming í Listasafni Reykjavíkur 2026
Í gær, þriðjudaginn 28. janúar, skrifuðu fulltrúar frá Listasafni Reykjavíkur og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs undir samstarfssamning um sýninguna Hraunmyndanir (e Lavaforming), sem verður framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025.
Sýningin Hraunmyndanir / Lavaforming verður sett upp í Listasafni Reykjavíkur í ársbyrjun 2026 og Markús Þór Andrésson deildarstjóri sýninga og miðlunar Listasafns Reykjavíkur, verður ráðgefandi sérfræðingur í aðdraganda sýningarinnar ytra og hefur yfirumsjón með uppsetningunni í Listasafni Reykjavíkur.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr. Feneyjatvíæringurinn verður opnaður 10. maí næstkomandi og mun standa til 23. nóvember. Höfundar Hraunmyndana / Lavaforming eru s.ap. arkitektar með Arnhildi Pálmadóttur í fararbroddi sem sýningarstjóra og listrænan stjórnanda verkefnisins. Framkvæmd þátttöku Íslands á Feneyjatvíæringnum er í höndum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs fyrir hönd ráðuneytis menningar, nýsköpunar og háskóla.
Í verkefninu Hraunmyndanir / Lavaforming er sögð saga framtíðarsamfélags sem þróar framsæknar lausnir í mannvirkjagerð. Hraunrennsli er beislað, nýtt sem byggingarefni og tekst með því að umbreyta staðbundinni ógn í auðlind.
„Í okkar sögu árið 2150 höfum við beislað hraunrennslið líkt og við gerðum með gufuaflið á 20. öld. Við vörðum söguna með atburðum sem höfðu áhrif á þróun og tækni en markmið hennar er að sýna að arkitektúr getur verið krafturinn sem endurhugsar og mótar nýja framtíð. Hraunflæði getur innihaldið nóg byggingarefni fyrir grunnstoðir heillrar borgar sem rís á nokkrum vikum án skaðlegrar námuvinnslu og óendurnýtanlegrar orku.“ - Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt.
„Við erum mjög ánægð og þakklát að Listasafn Reykjavíkur muni setja upp Lavaforming sýninguna hér á landi þannig að Íslendingar geti upplifað hana. Við eigum fjöldan allan af framúrskarandi arkitektum á Íslandi og þátttaka í Feneyjartvíæringnum í arkitektúr, sem verður opnaður núna í maí, er stórt skref fyrir land og þjóð enda er tvíæringurinn einn virtasti og mikilvægasti viðburður á sviði arkitektúrs á heimsvísu.“ - Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
,,Við hér í Listasafni Reykjavíkur fögunum því að fá tækifæri til að sýna og kynna hérlendis þetta metnaðarfulla verkefni. Það er alltaf mikilvægt að efla samfélagsumræðu um skapandi listir og óvæntar lausnir sem felast í nýstárlegum hugmyndum.” - Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur