Arnhildur Pálmadóttir hlýtur Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs
Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt hlýtur Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þverfaglega nálgun og áherslu á minnkaða kolefnislosun og endurnýtingu byggingarefnis.
Rökstuðningur dómnefndar:
Arnhildur er fjölhæfur sérfræðingur sem brennur fyrir breytingum í borgarskipulagi, arkitektúr og byggingariðnaði. Í vinnu sinni sem arkitekt kemur Arnhildur að öllum stigum byggingarverkefna, þ.e. borgarskipulagi, hönnun og smíðaferli bygginga. Með fjölbreyttum áhugmálum sínum og kunnáttu stuðlar hún að breytingum og finnur sjálfbærar lausnir í iðnaði sem ber ábyrgð á um 40% af kolefnislosun heimsins. Hönnunarverkefni hennar, hvort sem um er að ræða einstaka hús eða borgarskipulag, snúast að miklu leyti um að nýta endurunnin og endurnýtt efni, minnkaða orku-og efnisnotkun, kolefnishlutlausar lausnir og ástundun sjálfbærs lífsstíls, t.d. með því að auðvelda notkun almenningssamgangna, deilihagkerfis og fleira.
Auk þess að stýra eigin fyrirtæki, s.ap arkitektar, hefur hún nýlega tekið við stjórn stofu danska arkitekta-og nýsköpunarfyrirtækisins Lendager á Íslandi en fyrirtækið sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrásarhugsun í mannvirkjagerð. Jafnframt hefur hún komið að kennslu við hönnunardeild Listaháskóla Íslands ásamt því að hafa birt greinar um nýsköpun, tækni og sjálfbærni í hönnun og byggingarstarfsemi og haldið fyrirlestra á því sviði.
Um þessar mundir vinnur Arnhildur að rannsóknum að því hvort stýra megi hraunrennsli í mót til þess að nota við byggingargerð. Hún mun sýna vinnu sína við þetta efni á 19. Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025.