Kerlingarfjöll Hálendismiðstöð tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2024
Kerlingarfjöll Hálendismiðstöð eftir Hönnunarteymi Bláa Lónsins, Basalt arkitekta og Design Group Italia er tilnefndur sem staður ársins á Hönnunarverðlaununum 2024. Verðlaunin fara fram 7. nóvember.
Rökstuðningur dómnefndar:
Kerlingarfjöll Highland Base virkja möguleika sögufrægs útivistarsvæðis á spennandi hátt, með vel hannaðri aðstöðu og fjölbreyttri þjónustu og afþreyingu. Í Kerlingarfjöllum er nú heilsársáfangastaður á miðhálendi Íslands, í stórbrotinni en viðkvæmri náttúru. Algild hönnun er í fyrirrúmi og við allar framkvæmdir, allt frá frumdrögum að smiðshöggi, hefur verið tekið tillit til friðlýsingar og jarðminja á svæðinu.
Við hönnun var horft til BREEAM-vistvottunarkerfisins og lögð áhersla á sjálfbærni m.a. í efnisvali þar sem timbur er endurnýtt og grjót í hleðslur fengið úr nærumhverfi. Form og efni kallast á við magnað umhverfið, útlínur þorpsins falla að náttúrunni í kring og lýsing og hönnun göngustíga styður einnig við einstaka upplifun gesta þar sem náttúran er í aðalhlutverki. Svæðið er gert eins aðgengilegt og kostur er, og þannig fléttast saman virðing fyrir umhverfinu og inngilding allra gesta. Fólk getur notið svæðisins á ólíkum forsendum, t.a.m. með því að nýta sér margvíslega gistivalkosti.
Aðstaðan í Kerlingarfjöllum hvort tveggja mætir kröfum nútímans og heiðrar sögu staðar sem margir bera sterkar taugar til.
Um:
Hönnunarteymi Bláa Lónsins, Basalt arkitektar & Design Group Italia
Hönnunarteymi Bláa Lónsins er leitt af Sigurði Þorsteinssyni, Chief Brand, Marketing and Design Officer hjá Bláa lóninu. Hann hefur unnið með Bláa Lóninu frá árinu 1997 þar sem hann hefur komið að hönnun og brandþróun, m.a The Retreat lúxushótels Bláa Lónsins. Hann var Chief Design Director hjá Design Group Italia í 25 ár þar sem hann vann fyrir viðskiptavini á borð við PepsiCo, Unilever, B&B Italia, Flos, Louis Poulsen, ABB, Kone, 3M, and UNICEF. Baldur Helgi Snorrason er arkitekt sem hefur komið að ýmsum hönnunartendum verkefnum síðan að hann hóf störf hjá Bláa Lóninu.
Basalt Arkitektar var stofnuð 2009 og samanstendur af hæfileikaríkum hópi arkitekta, byggingafræðinga og hönnuða sem er leiddur af Hrólfi Cela, Marcos Zotes, Perlu Dís Kristinsdóttur og Sigríði Sigþórsdóttur.
Design Group Italia er hönnunarstúdíó með aðsetur í Mílanó og New York. Það var stofnað árið 1968 og fæst fæst við víðtæka hönnun meðal annars vöruhönnun, stafræna hönnun, brand-hönnun og rýmishönnun.
Samstarfsaðilar verkefnis eru Efla verkfræðistofa, Ferill verkfræðistofa og Hildiberg hönnunarhús.
Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2024 fer fram í Grósku þann 7. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Fylgstu með næstu daga er við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2024.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.