Þrístapar er tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2024

Áfangastaðurinn Þrístapar í Vatnsdal í Húnavatnssýslu eftir Gagarín, Landslag og Harry Jóhannsson er tilnefndur sem staður ársins á Hönnunarverðlaununum 2024. Verðlaunin fara fram 7. nóvember.
Rökstuðningur dómnefndar
Á Þrístöpum hefur tekist einkar vel að búa gestum eftirminnilega upplifun. Saga, umhverfi og hönnun vinna saman og þjóna viðfangsefni sínu á áhrifaríkan en látlausan hátt. Áfangastaðurinn er hannaður í samvinnu Gagaríns, Landslags og Irmu.
Á Þrístöpum fór fram síðasta opinbera aftaka á Íslandi, árið 1830, þegar hálshöggvin voru þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson. Saga þeirra hefur orðið mörgum að yrkisefni í gegnum árin. Með uppbyggingunni á Þrístöpum gefst áhugasömum nú kostur á að upplifa söguna utandyra, í náttúru og andrúmi þessa sögustaðar.
Landslag og veður eru stór hluti upplifunarinnar. Gestir fylgja göngustíg að aftökustaðnum og feta þannig sjálfir í spor sögunnar. Vönduð steinhleðsla og haglega framsett fræðsluefni ramma inn svæðið. Á staðnum eru fáar minjar frá aftökunni, en á móti því kemur að tekist hefur að skapa vissa ljóðrænu í rýminu á staðnum sjálfum.
Hönnuðirnir hafa valið leiðir sem valda lágmarks raski á umhverfinu en styðja vel við staðarvitund, m.a. með vali á efni sem breytist með tímanum. Svæðið er öllum aðgengilegt, allan ársins hring.
Um
Landslag er rótgróin teiknistofa á sviði landslagshönnunar og skipulags með umfangsmikla og breiða reynslu á öllum sviðum fagsins. Landslag starfrækir skrifstofur bæði í Reykjavík og á Akureyri. Gagarín er hönnunarstofa sem þekkt er fyrir óvenjulegar gagnvirkar og ógagnvirkar sýningar. Harry Jóhannsson myndlistarmaður hjá Irmu og hefur í áratugi hannað og framleitt sviðsmyndir fyrir kvikmyndir og leikhús.
Sameiginlega hefur hópurinn brennandi áhuga á að bæta umhverfi og samfélag með metnaðarfullum og frumlegum lausnum um leið og þau umbreyta upplýsingum og fræðslu í sannfærandi upplifanir og sögur í fallegu umhverfi.
Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2024 fer fram í Grósku þann 7. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Fylgstu með næstu daga er við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2024.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.






