Eldgos er tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2024
Bókin Eldgos eftir teiknarann, hönnuðinn og rithöfundinn Rán Flygenring er tilnefnd í flokknum vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024. Verðlaunin fara fram 7. nóvember.
Rökstuðningur dómnefndar:
Verkið Eldgos er eftirminnilegt ferðalag á bókarformi þar sem brennandi áhuga á eldgosum og eldsumbrotum er miðlað á persónulegan hátt. Viðfangsefninu eru gerð skil á grípandi máta og með sérstökum stíl höfundarins í myndum og texta, og hvort tveggja fær notið sín í bók sem hrífur með sér lesendur á öllum aldri.
Sterkt myndmál, falleg og áhrifamikil litanotkun og hugkvæmni í framsetningu skapa skemmtilega upplifun þar sem húmor höfundar og ástríða fyrir viðfangsefninu skína í gegn á hverri opnu. Verk Ránar Flygenring eru innblásin af athugunum hennar á fólki og fyrirbærum og eiga það sammerkt að hafa hvort tveggja gott fræðslugildi og vera einkar faglega unnin.
Um:
Rán Flygenring starfar sem mynd- og rithöfundur, listamaður og teiknari í Reykjavík. Hún stundaði nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, og síðar heimspeki við Háskóla Íslands. Verk Ránar hafa verið gefin út víða um heim og hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir líflegan og óhefðbundinn frásagnarmáta. Auk bókaskrifa hefur Rán látið til sín taka á sviði lundahótelsreksturs, kaupaekkertbúðarstarfa, snarteikninga á ráðstefnum og notkunar myndrænnar greiningar í umhverfismálum og náttúruvernd.
Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2024 fer fram í Grósku þann 7. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Fylgstu með næstu daga er við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2024.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.