James Cook tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2024
Peysan James Cook, unnin í samstarfi Helgu Lilju Magnúsdóttur fatahönnuðar og Stephan Stephensen listamanns, fyrir BAHNS, er tilnefnd í flokknum vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024.
Rökstuðningur dómnefndar:
Peysan James Cook er frábært dæmi um hvernig góð hönnun getur haft jákvæð félagsleg áhrif. Með tímanum hefur orðið til samfélag unnenda James Cook peysunnar sem með réttu má kallast nútímaklassík í íslenskri hönnun. Tekist hefur að skapa einkennandi mynstur heim sem sækir innblástur í ljósmerki siglingabaujanna sem leiðbeina sjófarendum, en mynstrið er jafnframt að finna í sundfatnaði BAHNS og ýmsum öðrum prjónaflíkum. Peysan hentar öllum kynjum og aldurshópum og er framleidd í takmörkuðu upplagi og mismunandi litaútfærslum og því felst í henni ríkt söfnunargildi.
BAHNS fellur undir skilgreiningu hægtísku og fer ekki að dæmi tískuiðnaðarins um að setja stöðugt nýjar vörur á markað. Prjón er í eðli sínu umhverfisvæn aðferð við að framleiða fatnað þar sem litlu hráefni er sóað. Hönnun og gerð peysanna miðar einnig að löngum líftíma þeirra og góðri endingu.
Um:
Fatamerkið BAHNS var stofnað árið 2015. Hugmyndin spratt upp úr samstarfi fatahönnuðarins Helgu Lilju Magnúsdóttur og listamannsins Stephans Stephensen á HönnunarMars 2014.
Helga Lilja hefur hannað fatnað fyrir BAHNS frá stofnun þess og gerir enn. Hún útskrifaðist sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2006 en stundaði einnig nám við Gerrit Rietveld Akademíuna í Amsterdam. Helga Lilja er eigandi og hönnuður fatamerkisins Helicopter. Hún vann um árabil sem aðstoðar hönnuður NIKITA og hefur verið í margvíslegu samstarfi við fyrirtæki á Íslandi svo sem UN Women, Cintamani og Hvammsvík. Helga er einn af eigendum Kiosk Granda að Grandagarði 35.
Stephan Stephensen, einnig þekktur sem President Bongo, er listamaður og hugmyndasmiður sem vinnur á mörkum tónlistar, hönnunar, ljósmyndunnar og frjálsra sviðslista. Hann er einn af stofnmeðlimum Gus Gus og lék með sveitinni um víða veröld en einbeitir sér nú að eigin listsköpun.
Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2024 fer fram í Grósku þann 7. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Fylgstu með næstu daga er við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2024.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.