Hugmyndasamkeppni um sögu- og tæknisýningu í Elliðaárstöð og umhverfi
Orkuveita Reykjavíkur í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands efnir til lokaðarar hugmyndasamkeppni, að undangengnu forvali, um sögu- og tæknisýningu í Elliðaárstöð og nánasta umhverfi hennar, nærliggjandi húsum í eigu OR og tengingu við útivistarsvæðið í Elliðaárdal.
Um samkeppnina
Elliðaárdalurinn hefur sérstakan sess í hugum borgarbúa og fyrir margra hluta sakir. Hann er orðinn eitt vinsælasta útvistarsvæðið að sumri jafnt sem vetri, þar er veiddur lax í miðri höfuðborg en þar er líka vagga veitureksturs í borginni. Reykvíkingar sóttu sér drykkjarvatn í vatnsveituna í Elliðaárnar og endurnýjanleg orka hefur fengist þaðan í formi rafmagns og heits vatns í hitaveituna um áratugaskeið. Orkuveita Reykjavíkur á þannig rætur í dalnum.
Markmiðið Orkuveitu Reykjavíkur með þessu verkefni er að fólk eigi greiðan aðgang að þessu einstaka svæði í borginni sem er í almannaeigu, auka upplifun og ánægju og miðla fróðleik. Orkuveita Reykjavíkur vill rækta ræturnar og standa vörð um dalinn, lífríki hans og sögu.
Markmið
Markmið OR með uppsetningu sögu- og tæknisýningar sem nýti eignir fyrirtækisins í Elliðaárdal eru einkum þessi:
- Gera mannvirki OR í Elliðaárdal aðgengilegri almenningi.
- Varpa ljósi á þátt veitnanna í þróun borgarsamfélagsins
- Kynna eðli og umfang núverandi starfsemi OR og dótturfyrirtækjanna; Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur
- Auka áhuga einkum ungs fólks á iðn- og tæknistörfum og gera störf í virkjana- og veiturekstri aðlaðandi fyrir ungt fólk
- Efla fræðslugildi Elliðaárdalsins sem útivistarsvæðis
- Segja frá laxveiðum úr ánum og samspili þeirra við aðrar nytjar
- Taka upp samstarf við Borgarsögusafn til að njóta sérfræðiþekkingar starfsfólks þess og nábýlisins við Árbæjarsafn
- Finna stað þremur jarðborum, sem eru skilgreinandi fyrir tæknilega þróun nýtingar jarðhita í stað kolefnaeldsneytis til húshitunar í landinu
Áherslur dómnefndar
Dómnefnd metur innsendar tillögur með hliðsjón af samkeppnislýsingu þessari, ásamt keppnisgögnum sem vísað er til. Við mat á innsendum tillögum horfir dómnefnd einkum til þess hvernig tillagan kemur á móts við tilgang samkeppninnar eins og þeim er lýst í markmiðum keppninnar.
- Tillagan kynnir eðli og umfang núverandi starfsemi OR og dótturfyrirtækjanna; Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur.
- Tillagan hefur að leiðarljósi að efla áhuga á þætti veitureksturs í Elliðaárdal í þróun borgarsamfélagsins á höfuðborgarsvæðinu.
- Tillagan stuðlar að heildrænni ásýnd mannvirkja, góðum tengslum mannvirkja við umhverfi sitt og góðum tengingum út í aðra hluta Elliðaárdals.
- Tillagan ýtir undir forvitni og fræðslu með nýstárlegum og gagnvirkum lausnum sem auka áhuga ungs fólks á að starfa að orku- eða veitumálum.
- Tillagan ýtir undir notkun vistvænna lausna, í samræmi við umhverfisstefnu OR samstæðunnar.
Tilhögun samkeppni
Samkeppnin er lokuð hugmyndasamkeppni að undangengnu forvali sem verkkaupinn, Orkuveita Reykjavíkur, heldur. Umsókn um þátttöku í samkeppninni er opin hönnuðum, landslagsarkitektum og arkitektum í samstarfi við aðra fræði- og faghópa og er sérstaklega hvatt til þverfaglegrar nálgunar. Forvalsnefnd fer yfir allar innsendar umsóknir og velur úr þeim fjóra til sex þátttakendur í samkeppninni. Forvalsnefnd mun velja þátttakendur út frá reynslu þeirra og hæfni til að takast á við úrlausn viðfangsefnis samkeppninnar. Þar verður horft til fyrri verka, reynslu einstaklinga í teyminu, sem tilnefnt er, auk þess hvernig teymið er samsett með tilliti til þverfaglegrar þekkingar og bakgrunns. Umsækjendur í forvali skulu skila inn eftirfarandi gögnum:
- Ferilskrá verkefnisstjóra/aðalhönnuðar teymis.
- Lýsingu á fyrri verkum, ásamt myndum.
- Greinargerð um samsetningu teymis, með tilliti til þverfaglegrar þekkingar og bakgrunns meðlima. Ferilskrár mega gjarnan fylgja.
- Greinargerð, hámark 700 orð, þar sem nánar er gerð grein fyrir umsókn.
Umsækjendur skulu skila inn umsókn um þátttöku í forvali á rafrænu formi fyrir kl. 16.00 fimmtudaginn 14. febrúar 2019. Umsóknum skal skilað á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Ekki verður tekið við umsóknum er berast eftir tímafrest.
Umsækjendum sem veljast til þátttöku verður tilkynnt um það af kepppnisritara og trúnaðarmanni samkeppninnar. Tilkynnt verður opinberlega hverjir veljast til þátttöku í lokuðu hugmyndasamkeppninni fimmtudaginn 21. febrúar 2019
OR mun greiða hverju teymi er velst til þátttöku í samkeppninni kr. 1.000.000 fyrir tillöguna, að því gefnu að hún sé fullnægjandi samkvæmt keppnislýsingu og uppfylli skilyrði um afhendingu og skilaform. Þóknun verður greidd að samkeppni lokinni, þegar úrslit liggja fyrir.
OR er fyrirtæki í almannaeigu og leggur áherslu á að fara vel með fjármuni. Kostnaður við útfærslu á tillögum skal taka mið af því.
Keppnisgögn
- Keppnislýsing þessi
- Kortagrunnur á tölvutæku formi
- Loftmynd á tölvutæku formi
- Teikningar af mannvirkjum
- Ítarefni um OR og forsendur samkeppninnar
- Heildarstefna OR
- Umhverfis- og auðlindastefna OR
- Stefna OR um samfélagsábyrgð
- Viljayfirlýsing OR og Borgarsögusafns um að varðveita sögu veitureksturs
Þátttakendur keppni
Hvatt er til þverfaglegrar nálgunar en samkeppnin er opin hönnuðum, landslagsarkitektum, arkitektum í samstarfi við aðra fræði- og faghópa. Ef teymi vinnur saman að tillögunni er nóg að einn úr teyminu uppfylli menntunarkröfur.
Dómnefnd
Þriggja manna forvalsnefnd fer yfir umsóknir og velur umsækjendur til þátttöku í samkeppninni. Í forvalsnefnd sitja:
- Eiríkur Hjálmarsson // OR
- Guðrún Lilja Gunnlaugsd., vöruhönnuður // Hönnunarmiðstöð Íslands
- Andri Klausen, arkitekt AÍ // Hönnunarmiðstöð Íslands
Í fimm manna dómnefnd sitja:
- Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarmaður OR, formaður dómnefndar // OR
- Guðbrandur Benediktsson, forstöðumaður Borgarsögusafns // OR
- Heiða Aðalsteinsdóttir, landslagsarkitekt// OR
- Guðrún Lilja Gunnlaugsd., vöruhönnuður // Hönnunarmiðstöð Íslands
- Andri Klausen, arkitekt AÍ // Hönnunarmiðstöð Íslands
Dómnefnd er heimilt að leita eftir áliti utanaðkomandi sérfræðinga um einstök atriði telji hún þess þörf.
Keppnisritari
Trúnaðar- og umsjónamaður samkeppninnar er Haukur Már Hauksson.
Að forvali loknu fá þátttakendur kynningu á starfsemi OR samstæðunnar auk kynningar á þeim hugmyndum sem lagðar eru til grundvallar framtíðarsýnar svæðisins. Þá verður boðið til vettvangsferðar þar sem þátttakendum gefst færi á að skoða aðstæður, bæði innan- og utandyra. Kynning og vettvangsferð verður í höndum fulltrúa OR og umsjónarmanns samkeppninnar, sem jafnframt er trúnaðarmaður þátttakenda.
Frestur til fyrirspurna rennur út á miðnætti fimmtudagsins 7. mars 2019. Fyrirspurnum skal beint til trúnaðarmanns á netfangið: samkeppni@honnunarmidstod.is. Keppnisritari mun leggja afrit af þeim fyrir dómnefnd. Gert er ráð fyrir að svör við fyrirspurnum liggi fyrir fimmtudaginn 14. mars 2019. Trúnaðarmaður sendir í framhaldi af því allar fyrirspurnir og svör dómnefndar við þeim til allra þátttakenda í tölvupósti.
Tungumál
Tungumál samkeppninnar er íslenska. Öllum tillögum skal skilað á íslensku. Dómnefndarálit verður gefið á íslensku.
Skilaform og afhending
Tillögum skal skilað útprentuðum og á pdf-formi á minniskubbi, annars vegar á tillöguörkum til upphengingar og í greinargerð. Tillöguarkir skulu að minnsta kosti innihalda eftirfarandi:
- Yfirlitsmynd sem sýnir heildarhugmynd (e. concept) fyrir Rafstöðvarreitinn og tengsl hans við umhverfi sitt og útivistarsvæðið í Elliðaárdal.
- Yfirlitsmynd sem sýnir heildarhugmynd (e. concept) fyrir innra skipulag tækni- og sögusýningar í Elliðaárstöð og annarra mannvirkja eftir því sem við á.
- Skýringarmyndir, skurðmyndir, fjarvíddar- og þrívíddarmyndir að vali höfunda.
- Greinargerð sem nánar er lýst hér að neðan.
Tillögum skal skila á pdf. formati og útprentuðum á tillöguörkum í stærðinni A1 (594x841 mm) og límdum á hörð spjöld til upphengingar. Skila má allt að 4 tillöguörkum og skal gera grein fyrir uppröðun þeirra með númerum í hægra horni niðri. Tillöguarkir skal hengja lóðrétt hlið við hlið.
Greinargerð skal að hámarki vera 2.000 orð. Í henni skal að minnsta kosti eftirfarandi koma fram:
- Meginhugmynd tillögunnar, helstu forsendur hennar ásamt markmiðum og áherslum tillöguhöfunda.
- Lýsing á ytra skipulagi Rafstöðvarreits og tengingu hans við nánasta umhverfi og útivistarsvæðið í Elliðaárdal ásamt lýsingu á innra skipulagi sögu- og tæknisýningar.
- Lýsing á því með hvaða hætti:
- tillagan kynnir eðli og umfang starfsemi OR og dótturfyrirtækjanna; Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur
- tillagan hefur að leiðarljósi að efla áhuga á þætti veitureksturs í Elliðaárdal í þróun borgarsamfélagsins á höfuðborgarsvæðinu
- tillagan ýtir undir forvitni og fræðslu með nýstárlegum og gagnvirkum lausnum sem auka áhuga ungs fólks á að starfa að orku- eða veitumálum
- tillagan ýtir undir notkun vistvænna lausna, í samræmi við umhverfisstefnu OR samstæðunnar
- tillagan eflir með fræðslu- og skemmtanagildi Elliðaárdalinn sem útivistarsvæði.
Tillögum skal skila í lokuðum umbúðum merktum dulnefni í Hönnunarmiðstöð Íslands, Aðalstræti 2, 101 Reykjavík, fyrir kl. 14 fimmtudaginn 2. maí 2019. Tillögur skulu merktar með sex tölustafa auðkennisnúmeri sem þátttakendur velja sjálfir. Með tillögunni skal fylgja sérmerkt umslag með sama auðkennisnúmeri. Umslagið skal innihalda upplýsingar um þátttakendur. Tillögur sem skilað er með pósti skulu bera stimpil með dagsetningu skiladags eða fyrr og skal merkja með eftirfarandi hætti: Hönnunarmiðstöð Íslands, v. / OR hugmyndasamkeppni, Aðalstræti 2, 101 Reykjavík.
Tillögu er veitt viðtaka berist hún innan tilgreinds skilafrests og nafnleyndar sé gætt.
Ef módel eða skúlptúr fylgir skal það vera innpakkað og merkt tillögunni.
Ekki er hægt að tryggja að keppendur fái tillögur sínar afhentar að keppni lokinni.
Orkuveita Reykjvíkur áskilur sér rétt til þess að efna til sýningar á innsendum tillögum.
Úrslit
Áætlað er að dómnefnd ljúki störfum fyrir 21. maí 2019. Þegar dómnefnd hefur formlega lokið störfum verður nafnleynd rofin og þátttakendum tilkynnt um niðurstöður dómnefndar. Dómnefndarstörfum lýkur með dómnefndaráliti og útnefningu vinningstillögu. Veitt verða verðlaun, kr. 2.000.000 fyrir vinningstillögu. Ef dómnefnd telur enga innsenda tillögu koma til greina til nánari útfærslu áskilur hún sér rétt til að hafna öllum tillögum og vinningstillaga verður ekki útnefnd. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.
Stefnt er að því að semja við vinningshafa um frekari hönnun, útfærslu og uppsetningu tillögunnar. Náist ekki samningar milli Orkuveitu Reykjavíkur og höfundar vinningstillögunnar innan sex (6) mánaða frá tilkynningu um niðurstöðu samkeppninnar er Orkuveitu Reykjavíkur heimilt, en ekki skylt, að ganga til samninga við höfunda annarra keppnistillagna um útfærslu og uppsetningu tillagna þeirra.
Um tólf mánaða skeið eftir lyktir samkeppninnar á Orkuveita Reykjavíkur einkarétt á notkunarrétti á innsendum tillögum. Að þeim tíma loknum er höfundum innsendra tillagna, sem ekki hefur verið samið við sérstaklega, frjálst að ráðstafa tillögu sinni. Tillöguhöfundar eiga allan höfundarrétt að tillögum sínum, sbr. höfundarlög nr. 73/1972.
Nánari upplýsingar um samkeppnina er að finna hér og á www.honnunarmidstod.is og www.or.is.
Á morgun, laugardaginn 26. janúar, verður opið hús í rafstöðinni á milli klukkan 13 og 16. Örleiðsögn um stöðina og rafmagn í Reykjavík verður á heila og hálfa tímanum. Í húsnæði Hins hússins, hinum megin við Rafstöðvarveginn, verður Vísindasmiðja Háskólalestarinnar með rafmagnstengdar tilraunir, tæki, þrautir og óvæntar uppgötvanir sem allir aldurshópar geta haft gaman af. Nánar um þann viðburð má finna hér.