HuldaJóns Arkitektúr, Sastudio og Exa nordic hljóta fyrstu verðlaun í samkeppni um nýjan leikskóla í Urriðaholti
HuldaJóns Arkitektúr, Sastudio og Exa nordic hljóta fyrstu verðlaun í samkeppni um nýjan leikskóla í Urriðaholti. Alls bárust 10 tillögur í samkeppnina sem haldin var af Garðabæ í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Verðlaunaafhending fór fram þriðjudaginn 8. júní í Garðbæ.
Haustið 2020 samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar að efna til samkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um hönnun nýs leikskóla í Urriðaholti. Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem íbúðabyggð er í örum vexti. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert er ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt. Skólinn skal verða sex deilda leikskóli við Holtsveg, neðan götu þar sem lóð opnast út að grænu svæði sem liggur frá efri hluta holtsins niður í átt að vatninu og Kauptúni. Áætluð heildarstærð leikskólans er um 1.400 m² og stefnt er að því að byggingin verði vistvottuð. Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring. Urriðaholt var fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags samkvæmt vottunarkerfi ,,BREEAM Communities“ sem er ætlað að tryggja lífsgæði og umhverfisvernd með vistvænu skipulagi byggðarinnar. Sjálfbærar ofanvatnslausnir eru í hverfinu sem eru fyrstu sinnar tegundar í íbúabyggð á landinu. Þó að stutt sé í náttúruna úr Urriðaholti liggur hverfið vel við í góðar samgönguæðar. Fyrsta verkefni dómnefndar var að semja samkeppnislýsingu. Í samkeppnislýsingu var m.a. farið yfir tæknileg atriði og lýsingar en einnig helstu áhersluatriði dómnefndar við mat á úrlausnum, atriði eins og heildarlausn og hugmyndafræði, byggingarlist í húsnæði og hönnun útisvæðis og umhverfis, sjálfbærni og kostnaðargát, hvernig skólinn og umhverfið sé hannað og uppfylli sem best væntingar til leiks, náms, velferðar og aukins þroska barna. Skilafrestur tillagna var til 26. apríl 2021 og alls bárust tíu tillögur. Dómnefnd þakkar þátttakendum fyrir ríkulegt framlag til uppbyggingar leikskólans í Urriðaholti í Garðabæ.
Dómnefnd lagði höfuðáherslu á eftirfarandi atriði við mat sitt á úrlausnum keppenda:
• Börn í aðalhlutverki Skólinn og umhverfi hans sé hannað fyrir börn og uppfylli sem best væntingar til leiks, náms, velferðar og aukins þroska barna. Umhverfið sé örvandi og gefi tækifæri til að læra í gegnum leik. Skólinn er griðarstaður þar sem börn finna til öryggis og geta verið í ró.
• Sveigjanleiki og fjölbreytni Húsnæðið þarf að bjóða upp á sveigjanleika í rýmum sem styður við frelsi og val barna til athafna. Í leikskólanum á að vera hægt að leika og starfa í stórum jafnt sem litlum hópum.
• Útisvæði og tengsl við umhverfi Leikskólalóðin á að vera félagslegur og námslegur vettvangur sem getur nýst íbúum hverfisins utan opnunartíma leikskólans. Samspil útisvæða og byggingar sé gott og taki mið af umhverfisþáttum og nýti tengslin við Urriðavatnið og umhverfi þess..
• Framúrskarandi starfsfólk Skólinn skal skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi sem laðar að framúrskarandi starfsfólk.
• Sérstaða Urriðaholts Umhverfissjónarmið, sjálfbærni og vistvæn hönnun verði höfð að leiðarljósi við hönnun og efnisval.
• Kostnaðargát og hagkvæmni Viðhöfð verði kostnaðargát við gerð tillögunnar, jafnt í rýmisnýtingu, efnisvali, byggingaraðferðum og rekstri byggingarinnar.
• Byggingarlist Tillagan feli í sér vandaða byggingarlist sem komi til móts við umhverfisþætti án þess þó að fórna aðgengi eða öryggi notanda
• Heildarlausn og skýr hugmyndafræði tillögunnar
1. verðlaun: HuldaJóns Arkitektúr, Sastudio og Exa nordic
Tillagan Urriðaból er heilstæð bygging með skemmtilegu uppbroti í formi sem skapar minni kvarða. Þá sýnir tillagan 5 mismunandi húshluta sem eru með mismunandi hæð og gefur yfirbragð húsaþyrpingar og telur dómnefndin það mikinn kost. Heildarmynd hússins er í takt við deiliskipulag Urriðaholts og sýna útlitsmyndir hvernig byggingin fellur vel að umhverfi og byggingum í næsta nágrenni. Þá skyggir byggingin ekki á útsýni nærliggjandi íbúðarhúsa. Lega hússins í lóð er nokkuð neðarlega og eru bæði tröppur og rampar frá bílastæðum að jarðhæð leikskólans og er húsið nánast hæð neðar en hæðarkóti við götu. Þennan hæðarmismun mætti mýkja og vinna betur. Útlit leikskólans er vel leyst með mismunandi klæðningum úr áli og timbri með misstórum gluggum, glerflötum og gróðurhúsi við inngang og þykir flæðið í húsinu einstaklega vel leyst.. Sjá nánar í dómnefndaráliti.
2. verðlaun: n/a – nikolova/aarsø, TEARK, EINRÚM ARKITEKTAR/EINRUM-FFW OG IKT-LEDERNE APS
Mjög einföld og grípandi heildarhugmynd er mikill og áhugaverður styrkleiki tillögunnar. Ótrúlega vel gengur að láta rýmisáætlunina ganga upp og skapa spennandi rými í þessari stífu geometríu sem hringformið er. Minna sannfærandi er aðlögun byggingarinnar að landi, lóð og skipulagi þar sem byggingin fer langt út fyrir byggingarreit og leikskólalóðin verður frekar sundurslitin. Byggingin er á einni hæð, felld inn í landið einni hæð neðar en bílastæðin. Öll meginrými snúa út úr hringnum en tengigangur tengir saman rýmin allan hringinn að inngarði. Gólfflötur byggingar stallast lítillega með landhalla og eru gólffletir tengdir með römpum í tengiganginum. Sjá nánar hér.
3. verðlaun: SEI STUDIO, LANDMÓTUN OG RÍKHARÐUR KRISTJÁNSSON / RK DESIGN
Tillagan er í senn einföld í heildarhugmynd sinni og fjölbreytt í innri rýmisskipan byggingarinnar og fyrirkomulagi lóðar. Fall lóðarinnar til suðvesturs er nýtt á ágætan hátt með neðri hæð þar sem byggingarreitur er lægstur og fellur byggingin vel að landi. Formun lóðarinnar spilar þar mikilvægt hlutverk og vel unnið með mismunandi leiksvæði sem eru mótuð samfara stöllun lóðarinnar. Skýr uppskipting er á starfsemi milli hæða þar sem svæði barna eru á efri hæð en starfsmannarými á þeirri neðri. Sjá nánar hér.
Innkaup: KRADS / Andrew Burgess
Tillagan fellur vel að landi og lóð og er byggingin miðjusett á lóðinni með grænu leiksvæði sem trappast niður til suð-vesturs. Þá er ákveðinn kostur að snúa byggingarhlutum í suður með útsýni yfir Urriðavatn í stað þess að snúa að verslunarsvæði Kauptúns. Gert er ráð fyrir aðgengilegum þökum með görðum og grænum svæðum og fellur það vel inn í hugmyndafræði deiliskipulags Urriðaholts. Byggingin er nokkuð sannfærandi í útliti og tillagan sýnir áhugaverða nálgun í utanhús klæðningum, efnisvali og uppbroti í formi. Sjá nánar hér.
Dómnefnd:
Tilnefnd af Garðabæ:
Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar
Hrefna Gunnarsdóttir, deildarstjóri Urriðaholtsskóla
Kristjana Fjóla Sigursteinsdóttir, formaður leikskólanefndar Garðabæjar
Tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands:
Freyr Frostason, arkitekt FAÍ, THG -Arkitektar
Sigurður Einarsson, arkitekt FAÍ, Batteríið Arkitektar
Ritari dómnefndar var: Arinbjörn Vilhjálmsson arkitekt, skipulagsstjóri Garðabæjar