Leiðsögn með Loja Höskuldssyni um hús Sigvalda Thordarsonar
Miðvikudaginn 16. júní ætlar Loji Höskuldsson, myndlistarmaður, að bjóða félögum í Arkitektafélagi Íslands upp á leiðsögn í formi rútuferðar þar sem farið verður um bæinn og helstu perlum Sigvalda gerð skil.
Mæting niður á BSÍ kl. 17.00 en rútan leggur af stað þaðan kl. 17.15. Leiðsögnin kostar fyrir félagsmenn 1000 kr. Alls eru 47 laus pláss í rútunni þannig að það er um að gera að skrá sig sem allra fyrst. Leiðsögnin var í boði á HönnunarMars en þá voru mun færri sem komust að en vildu. Skráning fer fram á hlekk hér fyrir neðan. Leiðsögnin tekur alla jafna 1 klst og 15 mín.
Við hlökkum til að sjá ykkur!
Loji Höskuldsson myndlistarmaður hefur lengi vel haft mikinn áhuga á verkum Sigvalda Thordarsonar og hefur verið að mynda hús hans síðan 2015. Nú í maí gaf hann út bók með verkum Sigvalda með heitinu Ástarbréf til Sigvalda sem er m.a. til sölu í Ásmundasal.
Nokkur orð um Sigvalda frá Loja Höskuldssyni
Starfsævi Sigvalda spannaði 23 ár en á þessum stutta ferli eru til hús eftir hann á víð og dreif um landið. Sum húsin eru þekkt en svo eru önnur minna þekkt. Sum voru teiknuð fyrir áhrifamenn í samfélaginu og önnur ekki. Bókin mun gera þessum húsum skil, í henni verða hans helstu stílbrigði og reynt verður að mynda góða heildarsýn á ævistarfi Sigvalda Thordarsonar. Það er ótrúlegt að hann hafi verið svona framsýnn og viðurkenndur, hann fæddistist á Ljósalndi í Vopnafirði árið 1911 fer síðan til Danmerkur í arkitektanám, þarf svo að flýja heim út af Seinni-heimstyrjöldinni. Fer svo aftur til Danmerkur til að klára námið, kemur að lokum heim og þá er skollið á Kalda stríðið. Sigvaldi var mjög pólitískur en eftir Sigvalda liggja sára fá opinber verkefni . Vinstri sinnaðir arkitektar áttu erfitt til uppdráttar hér á landi á þessum árum. Þó í þessum mótbyr öðlaðist hann gífurlega viðurkenningu og virðingu meðal starfsbræðra sinna og fólksins í landinu, það þótti virðingavert að búa í Sigvaldahúsi. Hann var boðberi módernisma í íslenskri húsagerðalist og hafði Sigvaldi gífurleg áhrif á sína samtíðarmenn og ekki er hægt að neyta áhrifunum hans í nýju íbúðarhúsunum sem hafa verið a að spretta upp undanfarið.
Búið er að gera ótal bækur um merka íslenska arkitekta en ég hef ekki rekist á neina bók um Sigvalda. Það eru aðallega lof og virðing sem ég hef rekist á í leit minni af frekari upplýsingum um arkitektinn. Hvergi er hægt að finna heimild um verkin hans en það er það sem þessi bók á að vera. Ég hef verið að ferðast um landið, skráð og myndað hús eftir Sigvalda og aflað mér allskyns fróðleik um verkin hans. Allt þetta verður sett upp á einfaldan og skýran hátt til að ná til sem flestra, bæði fólks innan sem og utan fagsins. Þessi bók verður mikilvægur hlekkur í safnið um íslenska byggingarsögu.
Í gegnum instagramm reikninginn minn varð mér ljóst að gríðarlegur áhugi er á verkum Sigvalda. Ég hef oftar en ekki verið stoppaður út á götu þar sem fólk tilkynnir mér að það búi í Sigvalada húsi eða afi sinn og amma hafi byggt húsið og búi ennþá daginn í dag í því. Um daginn var ég í röðinni á Hlöllabátum seint um kvöld og þar snéru tveir menn sér við. Þeir spurðu mig hvort að ég væri ekki Sigvalda-gaurinn. Ég svaraði því játandi. Það næsta sem gerðist var að þeir fóru að tala um húsin sem þeir bjuggu í við mig, eftir hvern þau voru, hvenær þau voru byggð og svo framvegis. Svo eftir það tilkynnti annar þeirra að tengdapabbi sinn ætti Sigvaldahús, Sturlu-Reyki sem er bóndabær í Reykholtsdal og ég væri ávallt velkominn í heimsókn því öll fjölskyldan væri að fylgjast með instagram reikningnum mínum. Á þessari stundu komst ég að því að Sigvaldahús er ekki bara eign sem þú býrð í, heldur líka listaverk sem þú átt.