Húsameistari í hálfa öld - Einar Erlendsson og verk hans
Björn G. Björnsson heiðrar minningu húsmeistarans Einars Erlendssonar með nýrri bók þar sem störf hans og verk eru gerð skil. Einar átti farsæla starfsævi í hálfa öld en hann var aðstoðarmaður bæði Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar.
Við myndun heimastjórnar árið 1904 færðist framkvæmdavaldið inn í landið, þar með talin mannvirkjagerð. Margt þurfti að byggja; kirkjur, sjúkrahús, skóla, húsnæði yfir stjórnsýsluna - og íbúðarhús í ört vaxandi borg. Þá komu þrír ungir menn til starfa sem höfðu mikil áhrif á framtíð íslenskrar húsagerðar.
Rögnvaldur Ólafsson var fyrstur, fæddur 1874. Hann hóf störf sem ráðunautur landstjórnarinnar um opinberar byggingar árið 1905 og lagði þar með grunninn að embætti húsameistara ríkisins. Hann teiknaði 30 kirkjur, þar á meðal Húsavíkurkirkju, og tugi annarra húsa á stuttum starfsferli. Rögnvaldur gegndi starfinu til dauðadags en hann lést um aldur fram árið 1917. Bók mín um Rögnvald kom út hjá HÍB árið 2016.
Guðjón Samúelsson var fæddur 1887. Hann kom heim frá námi í arkitektúr 1919, settist í nýtt embætti húsameistara ríkisins og gegndi því til dauðadags árið 1950. Báðir unnu þeir mikil afrek við að móta nýja íslenska húsagerð með byggingum sínum, hvor á sinn hátt, undir gríðarlegu álagi og við bilandi heilsu.
En þeir stóðu ekki einir á vellinum. Þar kemur til sögunnar, Einar Ingibergur Erlendsson, fæddur 1883, trésmiður sem numið hafði húsateikningu í Det Tekniske Selskabs Skole í Kaupmannahöfn 1903-1905. Það varð hlutskipti Einars Erlendssonar að verða aðstoðarmaður hinna tveggja, Rögnvaldar og Guðjóns, taka við embættum þeirra beggja þegar þeir féllu frá og halda áfram. Hann hefur því skiljanlega fallið nokkuð í skugga þeirra.
En Einar átti langan og farsælan feril á eigin vegum og teiknaði fjölda vandaðra og þekktra húsa á teiknistofu sinni í Skólastræti 5b á farsælli starfsævi sem varði hálfa öld. Saga Einars Erlendssonar hefur ekki verið sögð fyrr en nú.
Bókin hlaut styrkt úr Hönnunarsjóði.
Fáir íslenskir arkitektar hafa átt lengri og viðburðaríkari starfsævi en Einar Erlendsson. Enginn varð til að skrá þá merku sögu á meðan Einars naut við en sjálfur gaf hann sig lítt að því að ræða eða skrifa um eigin störf. Nú hefur loks verið ráðin nokkur bót á með því yfirlitsriti sem hér lítur dagsins ljós. Björn G. Björnsson á þakkir skyldar fyrir að heiðra minningu hins merka húsameistara með glæsilegri samantekt um ævi hans og verk.