Hvað langar þig að heyra og sjá á DesignTalks 2024? Opið kall til 16. október
Lykilviðburður HönnunarMars, DesignTalks, fer fram þann 24. apríl 2024 í sextánda sinn. Viðburðurinn hefur skapað sér mikilvægan sess á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og hefur farið fram fyrir fullu húsi í Silfurbergi Hörpu í mörg ár.
Við leitum til fagfólks og annarra sem starfa á sviði hönnunar og arkitektúrs og óskum eftir tillögum að umfjöllunarefnum og fyrirlesurum fyrir DesignTalks 2024. Óskað er eftir hugmyndum og tillögum, með stuttum rökstuðningi sem verða nýttar í hugarflug fjölbreytts hóps um dagskrána, sem boðað verður til síðar í október.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir er listrænn stjórnandi DesignTalks og stýrir dagskránni í samtali við fagfólk og í samstarfi við teymi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs. Unnið hefur verið með ólík þemu á hverju ári og áhersla lögð á að gestir DesignTalks geti sótt sér innblástur um leið og áhrifamáttur, hlutverk og ný tækifæri á sviði hönnunar og arkitektúrs eru skoðuð. Á DesignTalks er hönnun og arkitektúr sett í samhengi við áskoranir og samfélagsumræðu hverju sinni en um leið hugsað lengra og hærra; „Hvar og hvernig getum við beitt hönnun?“
Opið kall stendur til 16. október. Vinsamlegast sendið hugmyndir og tillögur á info@honnunarmars.is
Fjölmargir eftirsóttir erlendir fyrirlesarar hafa komið fram á DesignTalks ásamt úrvali innlendra hönnuða og arkitekta. Þar má nefna arkitektinn Bjarke Ingels, stofnanda arkitektastofunnar BIG, fatahönnuðinn Eley Kishimoto og Katharine Hamnett, sci-fi arkitektinn Liam Young, grafíska hönnuðinn Jessica Walsh, Sagmeister& Walsh, Calvin Klein, arkitektinn Winy Maas og arkitektinn og sjálfbærni frumkvöðulinn Anders Lendager, vöruhönnuðinn Ilkka Suppanen, grafíska hönnuðinn Jonathan Barnbrook, matarhönnuðinn Marije Vogelzang og Marti Guixe, vöruhönnuðina Aamu Song og Johan Olin frá Company, critical hönnuðinn Anthony Dunne, stofnanda Dunne & Raby, Ersin Han Ersin, listrænan stjórnanda Marshmallow Laser Feast, landslagshönnuðinn Peter Veenstra, critical design hönnuðinn Natsai Audrey Chieza, founder of Faber Futures, Paul Bennett sköpunarstjóra IDEO og marga fleiri.