Hvatning frá Arkitektafélagi Íslands
Eitt af stóru málunum sem komandi ríkisstjórn þarf að takast á við eru húsnæðismálin, samfara kröfunni um þéttingu byggðar, umhverfisvernd og verðbólgu. Þessi mál eru síður en svo ný af nálinni, en árangurinn hefur verið misjafn.
Af því tilefni vill Arkitektafélag Íslands hvetja næstu ríkisstjórn til þess að læra af reynslu undanfarinna ára og hugsa til langs tíma, með að markmiði að byggja vel upp til framtíðar.
Höfnum hraða á kostnað gæða
Arkitektafélag Íslands hefur áhyggjur af þeirri þróun hjá hinu opinbera að leggja minni áherslu á faglega ráðgjöf í skipulags- og byggingarmálum. Þróunin hefur verið í þá átt að sniðganga þjónustu arkitekta og leggja meiri áherslu á hraða og ofureinföldun. Allt of oft hefur það verið á kostnað gæða.
Höfum gæðin í fyrirrúmi við borgarskipulag og uppfyllum þarfir samfélagsins
Á tímum húsnæðisskorts getur orðið til kapphlaup við að byggja. Það leiðir oft til einsleitra og líflausra svæða sem skortir fagurfræðilega nálgun og uppfylla ekki breiðar þarfir samfélagsins. Góðu borgarskipulagi má aldrei fórna í þágu hraða því einsleitni í borgarskipulagi dregur úr félagslegum samskiptum, sköpunargleði og vellíðan.
Á móti styður vel ígrundaður arkitektúr við samfélagið, getur sameinað sögu, fjölbreytni í byggingarstíl, græn svæði og gönguvænar götur. Vel hannað þéttbýli þar sem íbúðarhúsnæði, verslanir og opin svæði eru samofin, stuðlar að aukinni göngu og hjólreiðum, eykur þátttöku í nærumhverfi og bætir lífsgæði.
Einnig er mikilvægt að tryggja að uppbygging húsnæðis og innviða taki tillit til allra samfélagshópa, þar á meðal efnaminni fjölskyldna og eldri borgara. Félagsleg samheldni er mikilvægur þáttur í að skapa sjálfbærara samfélag þar sem allir njóta góðs af.
Þétting byggðar, þegar hún er unnin á réttan hátt, er lykillinn að því að mæta húsnæðisþörfum án þess að ásælast græn eða náttúruleg svæði. Með þéttingu er hægt að nýta innviði betur, stytta ferðalög og efla samfélagsandann, á sama tíma og dregið er úr umhverfisáhrifum.
Fáum alla fagaðila að borðinu
Í stefnu stjórnvalda í hönnun og arkitektúr til 2030 segir:
Aukin sjálfbærni í mannvirkjagerð og annarri innviðauppbyggingu kallar á innleiðingu hringrásarhugsunar og aukna áherslu á notendur, gæði og líftíma bygginga, meðal annars í áherslum stjórnvalda í opinberum innkaupum og útboðum. Þar sem áætlað er að um 80% af umhverfisáhrifum séu ákvörðuð í hönnunarferli bygginga og vara er brýnt að arkitektar og hönnuðir séu leiðandi frá upphafi verkefna og að fagleg samkeppnis- og útboðsferli verkefna taki mið af því.
Við hvetjum komandi ríkisstjórn til að fá alla fagaðila að borðinu, hugsa heildstætt um uppbyggingu og framkvæma í samræmi við stefnuna á komandi árum.