Málþing um tísku og umhverfi í Norræna húsinu
Í tilefni þess að Misbrigði, samstarfsverkefni fatahönnunarbrautar Listaháskóla Íslands og Fatasöfnunar Rauða krossins, fer fram í tíunda skipti í ár, verður blásið til hátíðar í Norræna húsinu og Grósku dagana 22. - 24. nóvember, með málþingi, sýningum og vinnusmiðjum.
Annars árs nemendur fatahönnunarbrautar hafa í tíu ár hannað fatalínu sem eingöngu er unnin úr ósöluhæfum fatnaði og textíl sem safnast í Fatasöfnun Rauða krossins. Afrakstur námskeiðsins hefur verið sýndur á tískusýningu, í innsetningu og á tískuljósmyndum ár hvert og þykir okkur ástæða til að fagna því.
Af þessu tilefni verður boðið upp á málþing sem ber yfirskriftina “Tíska og umhverfi” í Norræna húsinu föstudaginn 22. nóvember kl. 12.30-16. Að málþinginu standa fatahönnunarbraut Listaháskóla Íslands, Fatasöfnun Rauða krossins og Umhverfisstofnun.
Viðfangsefni málþingsins er staða tísku og fatahönnunar á Íslandi í dag, umhverfisáhrif fataiðnaðarins og hringrás textíls. Bæði verða flutt erindi og boðið upp á pallborð með opnum umræðum. Dagskrá verður send út þegar nær dregur.
Á meðal mælenda eru:
Arnar Már Jónsson - kennari við LHÍ og stofnandi RANRA
Ásrún Ágústsdóttir - textílkennari og stofnandi Salún Studio
Bergþóra Guðnadóttir - fatahönnuður og stofnandi Farmers Market
Guðbjörg Rut Pálmadóttir - teymisstjóri Fatasöfnunnar Rauða krossins
Hulda Brynjólfsdóttir - stofnandi spunaverksmiðjunnar Uppspuna
Katrín María Káradóttir - prófessor í fatahönnun við LHÍ
Sólveig Hansdóttir - fatahönnuður og stofnandi Sól Hansdóttir
Að málþinginu loknu verður yfirlitssýningin “Misbrigði í tíu ár” formlega opnuð í anddyri Norræna hússins og svo í framhaldinu verður gestum boðið yfir í Grósku þar sem nemendur á öðru ári fatahönnunarbrautar verða með innsetningu.