Iðnaðarhampur sem byggingarefni, fjölnota fatalína, ermi sem stóll og ilmsinfónía meðal styrkþega Hönnunarsjóðs
Hönnunarsjóður úthlutaði þann 14. mars 28 styrkjum til ólíkra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs og 18 ferðastyrki. Að þessu sinni var 25 milljónum úthlutað en alls bárust 86 umsóknir um rúmar 188 milljónir í almenna styrki.
Efling alþjóðasamskipta, hringrásarhagkerfið, tækninýjungar í efni og framleiðslu og eftirfylgni verkefna sem hafa áður hlotið styrk er rauður þráður í úthlutun styrkja í fyrri úthlutun Hönnunarsjóðs 2021.
Athygli er vakin á því að úthlutun ferðastyrkja tvöfaldast frá fyrri úthlutun, en veittir voru 18 ferðastyrkir, 100.000 kr. hver. Fjöldi umsókna um ferðastyrki er kominn upp í sama fjölda og var fyrir Covid sem er gleðiefni.
„Það er ánægjulegt hversu fjölbreytt og spennandi verkefni hljóta styrk úr Hönnunarsjóði að þessu sinni. Það áberandi að hönnuðir og arkitektar eru í auknum mæli að leggja áherslu á að verkefnin hafi sjálfbærni og umhverfisáherslur að leiðarljósi. Í þessari úhlutun eru jafnframt nokkrum verkefnum fylgt eftir sem áður hafa hlotið styrk. Það er gaman að sjá verulega fjölgun umsókna um ferðastyrki sem er vísbending um að hið alþjóðlega samtal er að glæðast að nýju eftir covid. “
Birna Bragadóttir, formaður stjórnar Hönnunarsjóðs
Úthlutun Hönnunarsjóðs fór fram í Grósku þar sem ráðherra menningar og viðskipta, Lilja D. Alfreðsdóttir afhenti styrkþegum styrkina ásamt formanni stjórnar Hönnunarsjóðs, Birnu Bragadóttur. Ljósmyndari: Birna Ketilsdóttir Schram
Heildarlista yfir styrkþega og verkefni má lesa um hér fyrir neðan:
Markaðs- og kynningarstyrkir
Signý Þórhallsdóttir hlýtur 500.000kr fyrir MORRA – COLORISE
Fatalínan Colorise samanstendur af flíkum og slæðum þar sem litrík prent og náttúruleg efni kallast á við ósamhverfa og flæðandi sníðagerð.
Ýr Þrastardóttir hlýtur 500.000kr. fyrir Fjölnota umhverfisvæna Another Creation hversdagsgalla
Kynning og markaðsherferð á fatamerkinu ANOTHER CREATION sem er hannar og framleiðir fjölnota hversdagsgalla í samstarfi við Henson á Íslandi. Gallarnir eru seldir í versluninni Apotek Atelier við Laugaveg 16.
Þróunar- og rannsóknarstyrkir
Arnar Ingi Viðarsson hlýtur 500.000kr. fyrir Erm
Hvernig verður úlpa stóll? Erm er vörulína eftir Valdísi Steinars og Arnar Inga þar sem ermar af endurnýtanlegum flíkum eru notaðar sem áklæði á nýja gerð stóla. Verkefninu er ætlað að opna á samtal um hvernig hægt sé að framlengja líftíma neytendavara á framsækninn hátt þvert á milli vöruflokka.
Anna Diljá Sigurðardóttir hlýtur 500.000kr. fyrir Mýrlendið
Í verkefninu er sjónum beint að mýrum og mikilvægi jarðvegsins á Íslandi. Mýrar eru mikilvæg landsform sem hafa djúpa sögu inn í okkar menningu og uppruna. Fjallað verður um notkun þeirra í gegnum aldirnar, þau handtök sem viðhöfð voru og hæfni þeirra til kolefnisbindingar.
Óskar Örn Arnórsson hlýtur 500.000 kr. fyrir AAVS ICELAND: FISH, FOOTBALL, A POLITICAL ECOLOGY
AAVS Ísland er margra ára námskeið sem skoðar tengslin milli vinnslu náttúruauðlinda úr íslenskum sveitum og afkomu þeirra í gegnum byggingarform sem menningarstofnanir. Fyrsti hlutinn er sumarskóli í Reykjavík sumarið 2022.
Anna Kristín Karlsdóttir hlýtur 1.000.000kr. fyrir Biobuilding
Tilraunarannsókn og hönnunarverkefni sem kynnir hina aldagömlu aðferð að nota iðnaðarhamp sem nútíma byggingarefni sem ræktað er hér á landi og aðlaga það að staðbundnu loftslagi og aðstæðum. Fyrsta skrefið í átt að framtíð þar sem hægt er að reisa byggingu úr íslensku hráefni.
Studio Flétta og Ýrúrarí hljóta 1.000.000kr. fyrir Þæfing
Í Þæfingi vinna textílhönnuðurinn Ýrúrarí og Flétta saman að endurvinnslu ullar sem safnast hjá Rauða krossinum, prjónaverksmiðjum og ullarframleiðendum og ekki er farvegur fyrir hér á landi. Markmiðið með verkefninu er að þróa vörur úr ullinni svo hægt sé að nýta hana hér þar sem hún fellur til.
Brynjahönnun EHF hlýtur 1.000.000kr. fyrir Bioflísar
Þróun á bioflísum úr íslenskum sandi og bakteríum sem finnast víða í náttúrunni. Bakteríurnar mynda kalk sem bindur sandinn með svipuðum hætti og kóralrif mótast í náttúrunni. Rannsóknin felst í því að þróa vöru fyrir markað sem hefur svipaða eða betri eiginleika og náttúrusteinn.
Elín Hrund Þorgeirsdóttir, Baldur Björnsson og Þórey Björk Halldórsdóttir hljóta 1.000.000kr. fyrir LYKTSINF
Sinfónía er samspil hljóma marga hljóðfæra í flóknu kerfi tóna - ilmsinfónía er samspil margra ilma í flóknu kerfi lyktarskynsins. Rannsökuð verða tengsl tóna og ilms, uppverðrunar, hljómfalls, skynjunar og samruna. En hvernig virkar það í synesthesiu/samskynjun? Hljóð fær lykt, lykt fær útlit?
Valdís Steinarsdóttir hlýtur 1.500.000kr. fyrir Just Bones
Just Bones er sterkt náttúrulegt efni sem er unnið úr vannýttum beinum sem hefur aflfræðilega eiginleika á við MDF timburblöndu. Efnið er dæmi um hvernig vinna má vannýtt hráefni úr nærumhverfi okkar með því að skoða þau út frá nýju sjónarhorni og þannig finna þeim nýtt hlutverk og gildi.
Verkefnastyrkir
Þorsteinn Björgvin Aðalsteinsson hlýtur 200.000 kr. fyrir Framleiðslu á þjóðbúningaskarti
Hönnun og þróun búnaðar sem auðveldar og hraðar vinnu fyrir gullsmiði og þá sem sérhæfa sig í víravirki. Með hönnunar og nýsköpun í fyrirrúmi er hér um að ræða nýstárlega aðgerð til þess að vinna vírinn sem notaður er til að búa til víravirki, þjóðarstolt íslendinga
Elsa Jónsdóttir hlýtur 500.000 kr. fyrir Endurvakningu lágmyndarinnar
Verkefnið snýst um endurvakningu lágmyndarinnar, framleiðslu á 3m háum prótótýpum sem notaðar verðar til þess að selja og kynna verkefnið fyrir hagsmunaaðilum innan arkitekaheimsins.
Marta Heiðarsdóttir hlýtur 500.000 kr. fyrir Gælu
Gæla hannar vörur sem bjóða uppá fjölbreytt líkamleg samskipti milli eiganda og hlutar. Þessi samskipti skapa ríkari tilfinningaleg tengsl þarna á milli í gegnum aðlaðandi síð hár lambaskinsins sem er megin hráefni Gælu. Nú er í þróun kollur fyrir heimilið sem vinnur með þessa eiginleika
Þórey Björk Halldórsdóttir hlýtur 500.000 kr. fyrir Aldrei aftur land
&AM hannar klæðilegan skúlptúr og fljótandi hljóð með æðarfuglinn sem útgangspunkt. Verkið er partur af samsýningunni Tilraun II sýnd í Norræna húsinu, Svavarssafni,- IS. Vega Verdensarv Center, -NO, Nord Atlantisk Brygge og Store Tårn, Christansö -DK.
Thora Finnsdóttir hlýtur 500.000 kr fyrir Thora Finnsdóttir
Með innprentun á einkennandi fleti eru skoðuð úrval mannvirkja og forma úr íslenskri náttúru. Forvitni dansk-íslensks hönnuðar og listamanns um einstaka íslenska náttúruþætti og löngun til að miðla þessum sérstöku þáttum til annarra með hönnun.
Hanna Dís Whitehead hlýtur 500.000 kr. fyrir Snúning
Áframhaldandi þróun á húsgögnum, ljósum, vörum og textíl þar sem áhugaverðum efnivið, litum og sögu er blandað saman á nýstárlegan hátt.
Elín- Margot Ármannsdóttir hlýtur 500.000 kr. fyrir Carnal Utensils
Carnal Utensils eru verkfæri hönnuð til að auka ánægjuna af því að borða með því að efla næmni matarins. Í samvinnu við Schönrein (DE) er búið til og framleidd blendingsáhöld úr sílikoni til að borða eða stunda kynlíf.
Guja Dögg Halldórsdóttir hlýtur 500.000 kr. fyrir Efni og andi. Högna Sigurðardóttir, arkitekt
Hönnun á bók í stóru broti, sem unnin er upp úr rannsóknum höfundar á ævistarfi Högnu Sigurðardóttur arkitekts. Áhersla er lögð á sjónrænt viðmót sem endurspegli afar persónulega og frumlega nálgun Högnu í byggingarlist sinni, efniskennd og lífræna mótun sjónsteypu, á Íslandi og í Frakklandi.
Spaksmannsspjarir hljóta 1.000.000 kr. fyrir Sjálfbær tæknileg 3D tíska
Sjálfbær tæknileg 3D tíska (ST3DT) er nýsköpunarverkefni sem tengir saman sjálfbæra hönnun og tækni, markmið verkefnisins að þróa fatalínu þar sem íslenskur æðardúnn verður í lykilhlutverki. Kolefnisfótspor fatnaðarins verður lágmarkaður með innleiðingu nútímalegra stafrænna tæknilausna og ferla.
Spjarasafnið hlýtur 1.000.000 kr. fyrir Spjara
FÖNIX fatalínan er samstarfsverkefni SPJARA og margverðlaunaða fatahönnuðarins Sólar Hansdóttur og felur í sér hönnun, þróun og gerð fjölnota fatalínu, þeirrar fyrstu sinnar tegundar sem ætluð er til útleigu fyrir marga notendur í stað einkaeigu.
Kristín Sigfríð Garðarsdóttir hlýtur 1.000.000 kr. fyrir Framleiðslu íslenskra duftkerja
Verkefnið snýst um að koma íslenskum duftkerjum í framleiðslu. Kerin hafa verið í þróun síðan 2018. Þau eru unnin úr leirmassa með sérstakri íblöndun pappírs og íslenskra jarðefna sem flýta fyrir niðurbroti kerjanna í jörðinni. Prótótýpur verða frumsýndar á HönnunarMars.
HELICOPTER hlýtur 1.000.000 KR. fyrir 170-H
170-H er ný lína, sú fjórtánda, frá fatamerkinu Helicopter. Helga Lilja hannaði fatnað undir formerkjum Helicopter frá árinu 2010 - 2016 og kemur nú loksins ný lína þar sem munsturgleði setur enn stóran svip á fatnaðinn en digital prentið víkur að miklu leyti fyrir útsaum og handþrykki.
HUGDETTA hlýtur 1.000.000 KR fyrir 1+1+1 : The Water Project
1+1+1 : The Water Project er könnun á vatni sem miðli fyrir helgisiði á Norðurlöndunum og í Japan. Baðupplifun á Íslandi og vörur sem tengjast helgisiðinu verða lokaafurð rannsóknarinnar. Bæði vörur og helgisiðir verða sameining menningarheima og handverks þeirra.
Björn Loki Björnsson hlýtur 1.000.000 KR fyrir Rusl Fest - SUSTAINABLE DESIGN FESTIVAL
RUSL er sjálfbær hönnunarhátíð - með áherslu á hringrásar hagkerfið og sameinar skapandi rými í Gufunesi. Viðburðir, sýningar, pallborðsumræður og félagslegar samkomur á mismunandi stöðum, færa ljós og líf í hverfi sem er í þróun ásamt því að snerta mikilvægt efni samtímans.
Pikkoló hlýtur 1.000.000 KR fyrir SNJALLDREIFIKERFI FYRIR MATVÖRUVERSLANIR
Pikkoló er snjalldreifikerfi fyrir matvæli sem versluð eru á netinu. Markmið Pikkoló er að bjóða upp á ódýrari og umhverfisvænni leið við dreifingu matvæla sem versluð eru á netinu. Þetta gerum við meðal annars með því að tengja matvöruverslanir við vinnustaði og aðra fjölfarna staði.
Haraldur Ingvarsson hlýtur 1.500.000 KR fyrir FIBRA EININGARHÚS
Endurskoðun á aðferðafræði við mannvirkjagerð, í staðin fyrir hefðbundin byggingarefni nýtum við reynslu úr bátasmíðum, notum ólífrænt byggingarefni sem þarf einstaklega lítið viðhald. Einingarhús úr trefjaplasti og steinull, efni sem uppfyllir brunakröfur í flokki 1, með mjög lágt sótspor.
Anna Sigríður Jóhannsdóttir hlýtur 1.500.000 KR fyrir Dagsbirtugæði í íbúabyggð við íslenskar aðstæður
Dagsbirta vekur líf og borg er lifandi samfélag. Athyglinni er beint að dagbirtugæðum í íbúðabyggð í borgarumhverfi. Rannsökuð gömul og ný íbúðasvæði, mat lagt á dagsbirtugæði og áhrif þeirra á nýtingu rýma, umhverfisleg gæði og áhrif dagsbirtugæða í innri rými. Hvað eru gæði og hvernig birtast þau?
Nægtarbrunnur náttúrunnar hlýtur 1.500.000 KR fyrir Nægtabrunn náttúrunnar
Nægtabrunnur náttúrunnar (NN) er nýsköpunarverkefni sem hefur það að markmiði að þróa og hefja framleiðslu drykkjarvara í Bárðardal: Markmiðið er að framleiðsluferli, afurð og upplifun af því að taka þátt í að þróa og neyta hennar verði ein heild.
Ferðastyrkir, 100. 000 kr. hver
- Fatahönnunarfélag Íslands, The EU Fashion Councils Summit, Frankfurt
- Praks ehf, Urð á Cosmoprof, Ítalía
- Sylvía Dröfn Jónsdóttir, tveir styrkir fyrir Spectrum II - Cirva - Studio Brynjar&Veronika, Frakkland
- Smjör SLF, þrír styrkir fyrir Knowing the ropes at Hallwylska Museet, rannsóknarferð og workshop, Stokkhólmur
- Bihm ehf, tveir styrkir fyrir Embrace, Frankfurt
- Jón Helgi Hólmgeirsson, FÓLK á Stockholm Furniture Fair, Svíþjóð
- Olga Bergljót Þorleifsdóttir, Nordic Textile Meeting, Osló
- Lily Adamsdóttir, Nordic Textile Art - ráðstefna, Osló LILY
- Erla Björk Baldursdóttir, ISLAND & ISLAND – Outdoor by Ispo, Þýskaland
- Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir, Hringir - einkasýning, Kaupmannahöfn
- Objective, tveir styrkir fyrir þátttöku í Southern Swedish Design Days, Svíþjóð
- Ihanna Home og Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir, tveir styrkir fyrir Heimsókn til Litháen
- Sigrún Úlfarsdóttir, heimsókn í verksmiðju, Portúgal