Opið kall á Hugverk - samsýningu Félags vöru- og iðnhönnuða á HönnunarMars 2022
Félag vöru- og iðnhönnuða stendur fyrir samsýningu hönnuða á HönnunarMars 2022 en í ár er yfirskrift sýningarinnar að þessu sinni Hugverk. Opið er fyrir umsóknir um þátttöku í sýningunni og frestur til 27. mars.
Sýningin er partur af sýningarröð félagsins Hlutverk, Hugverk, Handverk en fyrsti partur þess Hlutverk var haldin á HönnunarMars 2021 þar sem 14 hönnuðir og hönnunarteymi fjölluðu um hluti sem finna mátti ný hlutverk.
Hugverk fer fram með svipuðum hætti en áhersla er á hugverkið sem býr að baki verkanna á sýningunni. Hugmyndafræðin, sagan eða húmorinn í verkunum er sett í forgrunn í stað fagurfræði þess eða hlutverks. Inni í þetta samhengi passa alls kyns miðlar, enda er markmiðið ávallt að sýna fjölbreytileika íslenskrar hönnunar, mengið stórt og opið fyrir túlkun hönnuða. Líkt og í fyrra stendur félagið fyrir opnu umsóknarferli þar sem allir hönnuðir eru hvattir til þess að sækja um.
HönnunarMars 2022 fer fram dagana 4. - 8. maí.
Hvernig á að sækja um?
Þátttakendur skila inn skissu af hlut/verki á tveimur A4 blöðum þar sem útliti, efnisvali og síðast en ekki síst hugmynd verksins er lýst í máli og myndum. Verkefnið má vinna sem einstaklingur eða teymi. Með umsókn skal fylgja texti um hugmynd að hámarki 100 orð sem notaður verður í kynningu á verkinu ásamt nafni, símanúmeri og netfangi. Innsendar tillögur verða kynntar nafnlaust fyrir valnefnd. Senda skal hugmyndir á PDF formi á netfangið voruhonnun@honnunarmidstod.is.
Sýningarnefnd á vegum Félags vöru- og iðnhönnuða velur tíu hugmyndir og fá hönnuðir þeirra tækifæri til að þróa hugmynd sína af pappír yfir í frumgerð á 4 vikna tímabili í samtali við sýningastjóra en sýningarstjóri í ár er Rebekka Ashley, vöruhönnuður.
Lokaverkin og leiðin að frumgerð hvers hlutar verða svo til sýnis á sýningu félagsins á HönnunarMars 2022 á Hafnartorgi í maí næstkomandi. Við lok sýningar verður blásið til uppboðs á frumgerðunum á sama stað og mun allur ágóði renna til hönnuða verkanna.
Þátttökugjald fyrir nemendur og félagsmenn í Félagi vöru- og iðnhönnuða er ókeypis. Almennt þátttökugjald fyrir hönnuði er 25.000 kr.
Helstu dagsetningar:
- 3. mars - 27. mars: Opið umsóknarferli
- 1. apríl: Val á tillögum tilkynnt
- 2. apríl - 1. maí: Hönnunarferli
- 4. maí: Opnunarhóf sýningar á HönnunarMars
- 4. maí - 8. maí: HönnunarMars
- 8. maí: Uppboð Hugverks