Katrín Alda hlýtur Indriðaverðlaunin 2024
Indriðaverðlaunin voru haldin hátíðleg þann 25. nóvember síðastliðinn. Handhafi verðlaunanna að þessu sinni var Katrín Alda Rafnsdóttir fyrir skó -og fylgihlutamerki sitt Kalda.
Í rökstuðningi dómnefndar stendur meðal annars:
„Kalda hefur ávallt verið leiðandi og óhrætt við að ögra hefðbundinni fagurfræði. Katrín Alda hefur með sínum hugmyndum byggt brú á milli listfengi og notagildis, skapað vörur sem ná til fjölbreyttra hópa bæði innanlands og á alþjóðavísu. Hennar framlag til íslenskrar fatahönnunar er ómetanlegt, enda er hún einn fárra íslenskra hönnuða sem sérhæfir sig í fylgihlutum. Með sinni einstöku nálgun hefur hún rutt sér til rúms sem táknmynd og tímalausrar fagurfræði.“
Til viðbótar við Indiðaverðlaunin voru einnig í fyrsta sinn veitt sérstök Hvatningarverðlaun fyrir ungan og upprennandi hönnuð. Guðmundur Magnússon fatahönnuður hlaut þau fyrir nýstofnað merki sitt Vecct en merkið leggur áherslu á hlaupafatnað.
Í rökstuðningi dómnefndar stendur:
"Guðmundur Magnússon hefur þrátt fyrir ungan aldur þróað sterka heildarásýnd fyrir merki sitt VECCT, ásamt því að sameina frumleika, notagildi og fagurfræði á einstakan hátt. Með skýra sýn og áherslu á viðskiptavininn hefur hann skapað vörur sem eru hannaðar út frá þörfum notandans, þar sem hvert smáatriði fær athygli og sýnir fágaða hugsun. Fatnaðurinn og fylgihlutirnir bera þess merki að gæði og nýsköpun ráði ríkjum. Með merki sínu hefur Guðmundur einnig farið óhefðbundnar leiðir í markaðssetningu og fjármögnun, þar sem framsækni og nýjungar hafa einkennt nálgunina.
Dómnefnd telur vörumerkið vera framúrskarandi dæmi um nýja kynslóð íslenskra fatahönnuða og fagnar því framtíðarsýn þess og sköpunargleði. Það verður spennandi að fylgjast með því vaxa og dafna á komandi árum."
Dómnefndin var skipuðu Steinunni Sigurðardóttur, Álfrúnu Pálsdóttir, Ernu Einarsdóttur og Eddu Guðmundsdóttur. Fatahönnunarfélag Íslands kann þeim bestu þakkir fyrir vel unnin störf.
Edda Guðmundsdóttir stýrði pallaborðsumræðum en þátttakendur voru Rakel Sólrós (66°Norður), Berglind Ósk Hlynsdóttir (Flokk till you drop), Guðmundur Magnúson (Vecct), Sigmundur Páll Freysteinsson (Annarsflokks) og Ásgrímur Már Friðriksson (Stafræn Reykjavík).
Indriðaverðlaunin eru innblásin af starfi Indriða Guðmundssonar en með þeim vill Fatahönnunarfélag Íslands veita hönnuðum viðurkenningu fyrir starf sitt og framlag til íslenskrar fatahönnunar og beina ljósi að því besta sem er að gerast í íslenskri fatahönnun hverju sinni. Verðlaunin eiga að auka vitund og virðingu fyrir íslenskri fatahönnun.