Menningarstyrkir í Creative Europe – vinnustofa í gerð umsókna
Rannís í samstarfi við Einkofi Production stendur fyrir vinnustofu 13. ágúst 2020 um hvernig best er að haga gerð umsókna í Creative Europe - evrópska menningarstyrki.
Vinnustofan verður haldin fimmtudaginn 13. ágúst 2020 frá kl. 9-12 á Zoom. Vinnustofan fer fram á íslensku og ensku. Á vinnustofunni verða möguleikar í Creative Europe kynntir ásamt því að skoðaðir verða Efta styrkir sem Rannís heldur einnig utan um.
Farið verður yfir allt umsóknarferlið:
- Forgangsatriði CE menningarstyrkja og aðlögun þeirra að verkefnishugmyndum.
- Hvernig best er að finna evrópska samstarfsaðila
- Utanumhald verkefna og skýrslugerð.
- Boðið upp á hópavinnu með það að markmiði að þróa verkefni sem leiðir til góðrar umsóknar.
Vinnustofan gefur færi á að:
- Kynna sér bakgrunn menningaráætlunarinnar og forgangsatriði hennar.
- Fá stuðning í þróun verkefnis og leiðir til að finna evrópska samstarfsaðila.
- Skilja undirbúning umsóknar og hvað þarf að liggja fyrir þegar sótt er um.
- Þróa og prófa hugmyndir sem svara forgangsatriðum Creative Europe.
- Fá persónulegan stuðning frá teymi Einkofa.
- Læra að vinna að sterkri umsókn.
- Skoða hvernig hugmynd er þróuð að góðri umsókn.
- Þróun á verkplani fyrir samtök/fyrirtæki á umsóknarferlinu.
Styrkir geta verið á bilinu 200,000 - 2,000,000 evra. Alltaf er um evrópskt samstarf að ræða og rennur umsóknarfrestur út í lok árs 2020. Mikilvægt er fyrir umsækjendur að huga tímanlega að samstarfi og skoða þá styrkjamöguleika sem bjóðast.
Einkofi hefur reynslu af umsóknarferlinu og hefur fengið tvo styrki frá Creative Europe með samstarfsaðilum frá Noregi, Skotlandi, Danmörku og Kýpur. Einnig hefur Einkofi unnið að þróun EEA verkefna með rúmenskum og portúgölskum samstarfsaðilum.
Umsækjendur geta leitað til Einkofa varðandi stuðning við umsóknir þegar sótt er um í fyrsta skipti sem og að fá aðstoð við þróun verkefnishugmynda.