Spjaraþon - tveggja daga hugmyndasmiðja gegn textílsóun
Spjaraþon er tveggja daga hugmyndasmiðja eða hakkaþon dagana 28. - 29. ágúst. Þátttakendur læra um vanda textíliðnaðarins og þróa og skapa í framhaldinu lausnir sem sporna gegn textílsóun. Smiðjan er haldin af Umhverfisstofnun og Saman gegn sóun.
Þátttakendur í hugmyndasmiðjunni velja úr fimm spennandi áskorunum sem unnar eru í samstarfi við ráðgjafahópa og samstarfsaðila Spjaraþonsins.
Fyrirlesarar fjalla um stöðu vandamálsins og hönnunarferlið þegar kemur að því að fá góða hugmynd sem þróa á yfir í árangursríkar lausnir sem eru bæði raunhæfar og gagnlegar. Teymin þróa hugmyndir, skila samantekt af þeim og kynna fyrir dómnefnd. Veitt verða verðlaun fyrir bestu hugmyndina.
Fyrir hverja?
Alla! Sérfræðinga, nema, hönnuði, fjárfesta, vísindamenn, kennara, félagsfræðinga, ömmur og fólk af öllum aldri og kynjum.
Helstu áskoranir:
- Hvernig fáum við almenning til að draga úr neyslu?
- Hvernig stuðlum við að sjálfbærni í framleiðslu textíls?
- Hvernig fáum við almenning til að lengja líftíma eigin textíls?
- Hvernig tryggjum við betri og skilvirkari endurvinnslu svo verðmæti tapist ekki?
- Hvernig aukum við þátttöku almennings í endurvinnslu á textíl?
Viðeigandi ráðstafanir verða í samræmi við sóttvarnarlög og viðburðurinn haldinn rafrænt ef þurfa þykir.
Fyrir nánari upplýsingar hafið samband við ust@ust.is