Miðstöð hönnunar og arkitektúrs boðið í evrópusamtök hönnunarfélaga BEDA
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur gengið í BEDA - evrópusamtök hönnunarfélaga sem er liður í að styrkja alþjóðlegt samstarf og tengingar Miðstöðvarinnar.
Framtíðarsýn og markmið BEDA er að hönnun sé megin drifkraftur sjálfbærs vaxtar og velmegunar í Evrópu. Aðalverkefnið er nýja evrópska Bauhaus þar sem áherslan er á grænar lausnir, lífsgæði og jafnrétti í samfélögum í Evrópu og víðar, og að tengja hönnuði álfunnar saman til að efla skapandi og þverfaglegt samstarf um það.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er fulltrúi Íslands í samtökunum en nú eru 54 félagar frá 28 löndum aðilar að BEDA, sem eru óhagnaðardrifin samtök með skrifstofur í Brussel. Meðlimir BEDA eru fjölbreytilegar miðstöðvar hönnunar, opinber fjármögnuð samtök sem kynna hönnun á landsvísu eða svæðisbundnum vettvangi sem og fag- og viðskiptasamtök hönnuða víðsvegar um Evrópu.
Við bjóðum Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Ísland velkomið í BEDA og evrópskt samtal og samstarf um nýja evrópska Bauhaus. Við deilum þeirri sýn að hönnun sé mikilvægt tæki og hreyfiafl fyrir sjálfbæran vöxt, aukin lífsgæði, samfélag án aðgreiningar og velmegun. Saman munum við vinna að þeirri framtíðarsýn með því að skapa vettvang fyrir nýja evrópska Bauhaus um alla álfuna, sem Evrópusambandið leggur megin áherslu á núna, sem lausn við helstu vandamálum samtímans.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs mun nýta sér BEDA til að styrkja tengingar og efla samstarf við erlenda aðila sem vinna að sama markmiði; að efla lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærar lausnir sem byggja á hönnun á Íslandi.