Fundur norrænu arkitektafélaganna haldinn í Stokkhólmi í ár
Norrænu arkitektafélögin funduðu saman í Stokkhólmi 19.-21. maí síðastliðinn. Fundur er jafnan haldin árlega en vegna Covid var hann síðast haldinn í raunheimum í Osló 2019 og árið 2020 sem fjarfundur. Á fundinum er farið er yfir sameiginleg málefni sem snerta félög og félagsmenn og tengslin styrkt. Jóhanna Höeg, ritari stjórnar og Gerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri AÍ, fóru fyrir hönd Arkitektafélagsins út á fundinn.
Hér á eftir stiklum við á stóru um þau mál sem tekin voru fyrir á fundinum.
Hvert og eitt land gaf góða skýrslu um starf síns félags. Þar er mikilvægt að heyra hvernig starfið er skipulagt og fjármagnað. Ísland er eina landið á Norðurlöndunum þar sem arkitektúr er lögverndað starfsheiti. Svíþjóð er eina landið þar sem öll félög hins byggða umhverfis eru undir sama hatti, þ.e. arkitektar, landslagsarkitektar, innanhúsarkitektar og skipulagsfræðingar. Bæði Finnar og Norðmenn eru að skoða það að opna sín félög fyrir landslagsarkitektum, þó félag Landslagsarkitekta sé virkt félag í þeirra heimalöndum. Menntun almennt er að breytast í heiminum. Fleiri brautir eru að verða til og AÍ mun nú skoða það enn frekar hvernig hægt er að stækka félagið með fleiri félagsmönnum. Opinberar stefnur í arkitektúr voru einnig til umræðu. Í hvaða ráðuneyti/um þær voru, hvernig þær voru virkjaðar og fylgt eftir. Menningarstefna í mannvirkjagerð, sem heyrir undir menningarmálaráðuneytið, var síðast endurnýjuð 2014 eða fyrir 8 árum síðan. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs vinnur nú að endurnýjun hönnunarstefnu með ferðamála, viðskipta-og menningarmálaráðuneytinu
Eins og við öll vitum er mikill munur á mannafla og fjármagni í Norrænu arkitektafélögunum en þrátt fyrir það getum við verið mjög stolt af okkar vinnu. Öll norrænu félögin fá töluverða fjármuni frá hinu opinbera (sækja um styrki árlega) til að fjármagna viðburði og verkefni. Hæstu fjárhæðina fá Norðmenn, en þeir fá u.þ.b. 27 milljónir árlega í styrk fyrir sín verkefni.
UIA 2023
Lars Autrup, framkvæmdastjóri danska arkitektafélagsins, hélt erindi um UIA 2023, arkitektúrráðstefnu sem haldin verður í Kaupmannahöfn í júlí á næsta ári. Þar er búist við 10.000 gestum víðsvegar að og eru íslenskir arkitektar hvattir til að mæta. Ísland mun að sjálfsögðu taka þátt í ráðstefnunni með einum eða öðrum hætti en við erum þegar farin að vinna í aðkomu Íslands að ráðstefnunni. Allar hugmyndir eru engu að síður vel þegnar.
Vettvangsferð
Alla daga var farið í vettvangsskoðanir þar sem við skoðuðum nýjan og eldri arkitektúr. Einnig fórum við á sýningu ArkDes um Sigurd Leverentz sem enginn sem á leið um Stokkhólm ætti fram hjá sér fara.