Minn HönnunarMars - Björg Magnúsdóttir
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Björg Magnúsdóttir, fjölmiðlakona, deilir hér hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu dagana munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Björg ætlar ekki að missa af í ár
Kristín Þorkelsdóttir
Kristín Þorkelsdóttir er gríðarlega vinsæll og verðlaunaður grafískur hönnuður, sannkölluð drottning í greininni. Það er magnað að lesa um verk hennar og ferilskrá sem inniheldur heila mannsævi af afrekum. Elja, natni og hæfileikar skína í gegn í öllum hennar störfum sem eru sannarlega virðingarverðir eiginleikar. Kristín er fædd árið 1936 og hefur því lifað tímana tvenna, ef ekki þrenna, í sínu fagi með tilheyrandi breytingum. Frá 15 ára aldri hefur hún helgað lífi sínu hönnun sem skiptir máli fyrir íslenskt samfélag og er fyrir augum okkar allra daglega, peningaseðlar og vegabréfið auk fjölda annarra þjóðþekktra merkja. Á Hönnunarmars í ár er almenningi í fyrsta skipti boðið að sjá ógrynni af skissum og pælingum sem eftir hana liggja. Sannarlega metnaðarfullt og löngu tímabær sýning sem ég hlakka mjög til að sjá.
Ástarbréf til Sigvalda Thordarson
„Er þetta ekki Sigvaldahús?” sagt á innsoginu er setning sem ég man eftir að hafa heyrt útundan mér allt mitt líf. Fyrstu árin vissi ég auðvitað ekkert hver þessi Sigvaldi var en með tímanum hefur síast inn að jákvætt svar við þessari spurningu er mikil upphafning og gæðamerki. Byggingar eftir arkitektinn Sigvalda eru nefnilega líka listaverk. Starfsævi hans spannaði eingöngu 23 ár en hann afrekaði nú samt að búa til hús víða um landið, sum þeirra vissulega þekktari en önnuð. Í tengslum við útgáfu bókar um verk hans verður farið á rúntinn í rútu þar sem perlur hans verða skoðaðar með leiðsögn. Hljómar eins og mjög fróðleg og skemmtileg ferð.
Ólífrænt
Það er hrikalega gaman að fylgjast með ungu kynslóð skapandi fólks á Íslandi. Halldór Eldjárn er klárlega verðugur fulltrúi síns áratugar, ótrúlega frjór og spennandi listamaður. Hann á nú svo sem ekki langt að sækja sköpunargáfuna sem lengi hefur fylgt Svarfdælingum. Eins og oft er með hæfileikaríkt fólk, er hausinn á því hreinlega að springa úr frjósemi. Afraksturinn í hans tilfelli eru verk unnin þvert á listgreinar og persónulega finnst mér fáránlega áhugaverð þessi tenging vísinda og lista, náttúru og tækni, nú eða forritunar og tónlistar, sem hann er á góðri leið með að sérhæfa sig í. Hann er svona "one to watch” en á sýningunni hans Ólífrænt verður hægt að sjá fjöll landsins í grafísku formi og skoða útprent af flóru náttúrunnar. Án efa fínasta meðal til að bæta lífsgæði og auðga andann.
Peysa með öllu fyrir alla, uppskeruhátíð
Sko. Alltaf þegar ég sé Ýrúrarí peysu byrja ég bara að brosa. Ýr Jóhannsdóttir, konan á bakvið þetta er augljóslega snillingur. Henni hefur tekist að búa til dálítið undarlegan, fyndinn og kúl hönnunarheim. Og pælingin er ekkert flókin, Ýr gerir einfaldlega gamlar og bilaðar peysur mjög smart aftur, mestmegnis með prjónalistina að vopni. Þannir slær hún tvær flugur í einu höggi; ýtir undir að við tökum okkur saman í andlitinu og gerum við fötin okkar í stað þess að kaupa ný - og býr til flík sem er ekki hægt að vera í fýlu í. Ýr stendur vaktina á Hönnunarmars með skapandi viðgerðarsmiðjum sem ég held að sé alveg kjörið að mæta á.
Eldblóm - ræktaðu flugelda
Sigríður Soffía Níelsdóttir dansari, danshöfundur og nú flugeldaræktandi er svo dásamlega frjó og áhugaverð manneskja. Síðustu ár höfum við fengið að njóta danslistar hennar brjótast út í stórum flugeldasýningum og nú er komið að því að sjá flugeldana í sinni upprunalegu mynd, þ.e. hnýði og fræ sem flugeldarnir voru upphaflega skapaðir eftir. Þetta verk er eiginlega tímanna tákn, nú á mannkynið allt í mesta basli við að finna vistvænar leiðir til að lifa og forðast hamfarahlýnun með tilheyrandi hruni. Eldblómin hennar Sigríðar Soffíu eru glæsilegur hlekkur í þeirri keðju. Inn í verkið eru líka hannaðar heimspekilegar pælingar um hvernig flugelda við viljum sprengja út (í víðasta skilningi) og auðvitað skemmtilegar samverustundir fjölskyldu og vina við að sinna eldblómunum.
Samæfður dans í Vesturbæjarlauginni
Það eru ákveðnir hlutir í þessum heimi sem eru sérstaklega gerðir til þess að auka á skemmtilegheit í lífinu. Samhæfður dans er klárlega einn þeirra, tala nú ekki um þegar dansinn fer fram í vatni. Eins og allir vita eru sundlaugar landsins almenningsgarðar okkar Íslendinga og skila hundrað prósent sínu þegar kemur að heilsueflingu og bætingu á geðheilsu landans. Ég er þess vegna mjög spennt fyrir því sem kallað er samhæfður sunddans í Vesturbæjarlauginni og fer fram á marsinum í ár. Bahns og Inga Maren Rúnarsdóttir sameina þarna saman krafta sína. Það eru frábærar vistvænar pælingar hjá merkinu, sem eiga vel við núna. Síðan hef ég fylgst með hinni hæfileikaríku Ingu Maren í mörg ár og veit að þetta verður veisla. Samhæfð sundveisla!