Minn HönnunarMars - Lea Gestsdóttir Gayet
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Lea Gestsdóttir Gayet, samskiptastjóri hjá Icelandair, deilir hér hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Lea ætlar ekki að missa af í ár.
Systralag II
Ég er spenntust fyrir sýningu grafíska hönnuðarins Bergþóru Jónsdóttur, Systralagi II. Sýningin hennar á Hönnunarmars 2018 var ótrúlega kraftmikil svo ég hlakka mikið til að sjá þetta sjálfstæða framhald og áframhaldandi upphafningu baráttukvenna og hópa. Bergþóra er líka æskuvinkona mín frá Dalvík og það er búið að vera mjög gaman að sjá hana vaxa sem grafískur hönnuður. Ég er ótrúlega stolt af henni!
Ólífrænt
Halldór Eldjárn hefur verið að gera magnaða hluti með því að tefla saman lífrænum hlutum á móti ólífrænum og ég hlakka til að sjá sýninguna hans „Ólífrænt“.
Grapíka Íslandica – Hvað er að ske?
Ég hlakka líka til að skoða sýningu Grapíku Islandicu, sem deilir rými með Systralagi II við Austurhöfn. Það verður gaman að fá að sjá inn í hugarheim kvenna í grafískri hönnun og hvað veitir þeim innblástur.
Maðurinn í skóginum
Það verða einhverjir töfrar í gangi í Elliðaárdal sem mig langar að tékka á. Stúdíó Flétta, Sóley Þráinsdóttir, Kristín María Sigurþórsdóttir og Friðrik Steinn Friðriksson segja frá verkum sínum í skipulögðum gönguferðum en innsetningarnar þeirra eru varanlegar svo fólk getur haldið áfram að njóta eftir að Hönnunarmars lýkur.
Jörmundur
Það verður spennandi að skoða skartgripi sem tengjast þjóð og menningu og eru innblásnir af munum sem má finna í Þjóðminjasafni og handritunum.