Minn HönnunarMars - Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
Nú er HönnunarMars í júní rúllaður af stað. Dagskráin telur um 80 sýningar og 100 viðburði sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn. Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars 2020 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ætlar ekki að missa af í ár.
„Hönnun og arkitektúr snerta öll svið samfélags og atvinnulífs. Áskoranir þjóða heims eru stærri en nokkru sinni og þarf hugvit og sköpunarkraft til að takast á við þær og þróa skapandi lausnir og tækifæri framtíðar. Í öllum því skapandi og öfluga fólki sem starfar við þessar greinar býr hugvit og kraftur sem mun skipta sköpum fyrir jákvæða framtíðarþróun samfélags og efnahagslífs á Íslandi. Hönnunarmars hefur í meira en áratug verið boðberi bjartari tíma og það á betur við nú en nokkru sinni fyrr. Ég hlakka alltaf til hátíðarinnar og hvet alla til að mæta!“
Dwarfware
Við Íslendingar erum og verðum alltaf mikil bókaþjóð. Sjálf hef ég alla tíð haft ást á lestri og þreytist ekki á því að leita mér innblásturs úr bókmenntunum. Það gleður mig alltaf mikið að sjá hvernig samtímalistamenn og hönnuðir finna sér í sífellu innblástur úr okkar merka sagnaarfi. Á hverju ári koma fram ný verkefni á Hönnunarmars sem leita í hann. Ég hlakka til að sjá Dwarfware nýja vöruhönnun Hrafnkels Sigurðssonar og Reynis A. Óskarssonar sem sækir í hugmyndaheim forna íslenska og norræna arfsins.
Sveinn Kjarval, það skal vanda sem lengi á að standa
Mikil gróska hefur verið í húsgagna- og vöruhönnun og arkitektúr á Íslandi á síðustu árum og eru sóknarfærin á því sviði mikil. Ég hlakka til að sjá yfirlitssýningu á hönnunarverkum Sveins Kjarvals hins merka frumkvöðuls í húsgagna- og innanhússhönnun í Hönnunarasafni Íslands en í fyrra var aldarafmæli hans. Ég tel að fleiri ungir hönnuðir ættu að feta í fótspor Sveins og annarra stórvirkja á þessu sviði því sóknarfærin eru mikil.
Ég hlakka einnig til að sjá hönnun ungra hönnuða eins og hjá Agustav og FÓLK sem eru dæmi um vaxandi fyrirtæki á sviði húsgagna og vöruhönnunar og taka þátt í Hönnunarmars víða um borg.
Agustav
Norður Norður – Fólk
Hefðbundin munstur í stafrænni framtíð
Textíl- og fatahönnun sprettur af gamalli og sterkri arfleifð á Íslandi sem stenst mjög vel alþjóðlega samkeppni. Ferðalag mitt um Hönnunarmars hófst að þessu sinni á sýningunni Hefðbundin munstur í starfrænni framtíð. Textílmiðstöð Íslands sinnir framsækinni alþjóðlegri starfsemi í rannsóknum og þróun á sviði textíliðnaðar svo eftir er tekið út fyrir landsteinana. Það er aðdáunarvert hvað við eigum framúrskarandi fatahönnuði og skartgripahönnuði á Íslandi.
Íslensk Flík
Fatahönnunarfélagið opnar vefsíðuna Íslensk flík sem er ákaflega þarft framtak þar sem við getum fræðst um íslenska fatahönnun, hugvit og framboð á fatahönnun á Íslandi sem ég hyggst kynna mér betur um helgina.
Sjálfbær hönnun – Spaksmannsspjarir
Ég mun ekki láta hjá líða að koma við í Spaksmannsspjörum hönnunarstofu á Hönnunarmars, sem er eitt af þessum heimakæru alþjóðlegu hönnunarfyrirtækjum sem við höfum átt í áratugi hér á landi.