Námskeið: Arkitektúr á Íslandi í 300 ár - hönnun, menning og pólitík.
Endurmenntun HÍ stendur fyrir áhugaverðu námskeiði í haust sem ber titilinn, Arkitektúr á Íslandi í 300 ár - hönnun, menning og pólitík. Kennari námskeiðsins er Óskar Örn Arnórsson, arkitekt og doktorsnemi í sögu arkitektúrs við Columbia-háskóla.
Á námskeiðinu verður meðal annars farið yfir sögu arkitektúrs á Íslandi frá upplýsingu til nútíma í tveimur fyrirlestrum. Sá fyrri tekur fyrir tímabilið frá 1752-1919, sem markast af byggingu Viðeyjarstofu fram að útskrift Guðjóns Samúelssonar úr Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Sá seinni fjallar um tímabilið frá 1919-2019—steinsteypuklassík og fúnksjónalisma (1919-1944), síðmódernisma (1944-1968), póstmódernisma (1968-2008) og það sem mætti kalla arkitektúr síðkapítalisma.
Skoðaðar verða einstaka byggingar og þær tengdar við alþjóðlega samtímastrauma í arkitektúr, listum, bókmenntum og heimspeki. Þær verða meðal annars skoðaðar út frá pólitík, hagfræði, kynjafræði, nýlendustefnu og stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi.
Námskeiðið fer fram dagana 21. október og 24.október frá 16.30-19.00.
Námskeiðið er fyrir arkitekta sem vilja kynna sér nýja strauma og stefnur í sagnfræði arkitektúrs og aðra sem koma að gerð hins manngerða umhverfis, s.s. byggingatæknifræðinga, verkfræðinga, innanhúshönnuða, skipulagsfræðinga og landslagsarkitekta. Einnig er hugsanlegt að sagnfræðingar, listfræðingar og listamenn muni hafa ánægju af námskeiðinu sem og áhugafólk um arkitektúr.