Grallaragerðin og UNICEF nýta mannmiðað hönnunarferli til að bæta móttöku barna í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi
Grallaragerðin og UNICEF nýta mannmiðað hönnunarferli til að bæta móttöku barna í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi. Verkefnið, sem ber nafnið Heima, er í höndum UNICEF á Íslandi og fer Grallaragerðin fyrir hönnunarhluta þess.
Hönnuðurinn Búi Bjarmar Aðalsteinsson er í forsvari fyrir hönnunarhluta verkefnisins þar sem aðferðir mannmiðaðrar hönnunar (e.human centered design) eru nýttar til koma auga á og bregðast við þeim áskorunum sem börn á flótta mæta hér á landi. Markmiðið er að skapa forsendur til þess bæta aðstæður barnanna með þeirra þátttöku.
Verkefnið fékk í sumar styrk frá félagsmálaráðuneytinu sem hljóðar upp á eina milljón króna sem og það hlaut jafnframt 1,5 milljón króna styrk frá Hönnunarsjóði. Verkefnið í heild sinni verður kynnt nánar á næstunni.
Á síðasta ári gaf UNICEF út skýrslu um stöðu barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Norðurlöndum. Verkefninu Heima er ætlað að fylgja niðurstöðum skýrslunnar eftir og miðar að því að bæta aðstæður barna í leit að vernd á Íslandi.
Markmið verkefnisins er að koma auga á brýnasta vandann og þróa varanlegar lausnir. Verkefnið byggir á samtölum við tæplega fjörutíu börn sem ýmist hafa komið ein til landsins eða í fylgd með foreldrum. Sömuleiðis á samtölum við foreldra og sérfræðinga sem sinna móttöku barna. Í ljós kom að umfangsmesta og jafnframt brýnasta verkefnið er bæta stöðu fylgdarlausra barna, en jafnframt að mæta hungri, kulda, bágu húsnæði og skorti á menntun og virkni fyrstu dagana og vikurnar á Íslandi.
Í tveimur vinnustofum unnu sérfræðingar frá ríki, sveitafélögum og félagasamtökum að lausnum á vandanum. Þar þótti mest aðkallandi að koma á fót móttökuheimili fyrir fylgdarlaus börn til að mæta grundvallarréttindum þeirra, umönnun og aðlögun. Aðrar lausnir snéru að bættri heilbrigðisþjónustu, bættri upplýsingagjöf og stuðningi við foreldra ungra barna, ásamt jöfnum aðgangi að tómstundum og annarri virkni.
Unnið er út frá hugmyndum mannmiðaðrar hönnunar, þar sem börn og foreldrar fá tækifæri til þess að skilgreina það sem gengur vel og það sem gengur illa og til þess notuð hönnunartólin kortlagning ferðalags (e. journey mapping) og persónusköpun. Eins er miðað við að öll framsetning sé myndræn eða þrívíð til að auðvelda skilning allra aðila.
Skipulagning verkefnisins er í höndum UNICEF á Íslandi og fer Grallaragerðin fyrir hönnunarhluta þess. Aðrir aðilar sem koma að verkefninu eru Hönnunarmiðstöð Íslands, Listaháskóli Íslands, Félag vöru- og iðnhönnuða, Umboðsmaður barna, Útlendingastofnun, félags- og barnamálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti og skipa fulltrúar þeirra faghóp um verkefnið.