Nordic Office of Architecture hlýtur fyrstu verðlaun í samkeppni um nýja stúdentagarða á Akureyri
Arkitektastofan Nordic Office of Architecture hlýtur fyrstu verðlaun í samkeppni um hönnun á nýjum stúdentagörðum fyrir Félagsstofnun stúdenta Akureyri (FÉSTA). Samkeppnin var auglýst 16. október 2023 og var unnin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Skilafrestur tillagna var til 25. janúar sl. og bárust ellefu tillögur innan settra tímamarka.
Búsetuþarfir stúdenta við HA hafa verið að breytast á síðustu árum og hefur framboð húsnæðis hjá Félagsstofnun Stúdenta Akureyri (FÉSTA) ekki náð að fylgja eftir þeirri þróun. Eftirspurnin hefur mest verið eftir minni íbúðum s.s. stúdíó íbúðum, 2ja herbergja íbúðum og einstaklingsherbergjum. Á grundvelli könnunar og greiningarvinnu FÉSTA var niðurstaðan sú að þörf væri á að FÉSTA myndi auka framboð sitt á minna húsnæði og húsnæði sem uppfyllti nútíma kröfur.
Í framhaldi af því efndi FÉSTA í samstarfi við Arkitektafélag Íslands til opinnar framkvæmdarsamkeppni um hönnun á nýjum stúdentagörðum innan háskólasvæðis Háskólans á Akureyri (HA). Meginmarkmið samkeppninnar er að fá tillögu sem gerir FÉSTA kleift að byggja bjartar og aðlaðandi íbúðir í góðu samræmi við húsnæðisþarfir nemenda HA.
Dómnefndin var sammála um að innsendar tillögur hafi verið fjölbreyttar og úrlausnir tillöguhöfunda ólíkar og margar áhugaverðar. Fjórar tillögur skáru sig úr með að svara áherslum dómnefndar á heildstæða byggingarlist, innra skipulag og lóðarfrágang.
Dómnefndin þakkar keppendum fyrir þátttökuna.
Megináherslur dómnefndar
- Að tillagan sé heildstæð og byggi á vandaðri byggingarlist
- Að gæði, notagildi og fyrirkomulag endurspegli framsækna hönnun
- Að ásýnd bygginganna og lóða falli vel að nánasta umhverfi
- Að aðgengis- og öryggismál séu vel leyst
- Að hönnun hvetji til félagslegrar virkni íbúa
- Að horft sé til umhverfisáhrifa bygginganna og vistvænnar hönnunar
- Að byggingarefni og lausnir uppfylli kröfur um hagkvæmni og góða endingu
Dómnefnd í samkeppninni var eftirfarandi:
Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands:
Hildur Ýr Ottósdóttir, arkitekt EPF-FAÍ
Ingunn Lilliendahl, arkitekt FAÍ
Tilnefndir af verkkaupa:
Ágúst Hafsteinsson, arkitekt FAÍ
Hólmar Erlu Svansson, stjórnarmaður FÉSTA, formaður dómnefndar
Jóhannes Baldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÉSTA
Trúnaðarmaður:
Gerður Jónsdóttir, frkv.stj. AÍ.
Ráðgjafi dómnefndar:
Cowi Ísland
Dómnefnd var einróma í vali á 1. verðlaunatillögu en á bak við hana er arkitektastofan Nordic Office of Architecture, auðkennd 336030 . Í dómnefndaráliti segir um verðlaunatillöguna:
,,Tillagan vakti hrifningu dómnefndar fyrir framúrskarandi lausnir og vandaða byggingarlist. Þrjár ferhyrndar byggingar með möguleika á þeirri fjórðu nyrst á lóðinni er leyst á mjög sannfærandi hátt. [...] Dómnefnd var sammála um að tillagan endurspegli framsækna hönnun, sé fagmannlega unnin og vel upp sett. Mikill skilningur er á gæðum rýma og tengingu þeirra á milli sem er ætlað að tryggja vistvæna og heilnæma búsetu."
Í öðru sæti var tillaga HJARK+Sastudio, auðkennd 310312 og í þriðja sæti var tillaga Kollgátu og KRADS, auðkennd 172737.
Við óskum öllum verðlaunahöfum innilega til hamingju og þökkum um leið öllum keppendum fyrir vandaða og góða keppni.