Ný heildstæð nálgun á áfangastaðastjórnun, Varða kynnt
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti í dag nýja heildstæða nálgun áfangastaðastjórnunar: Vörðu úr smiðju auglýsingastofunnar Brandenburg.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs auglýsti á síðasta ári eftir hönnuði eða hönnunarteymi til að vinna að hönnun og þróun einkennis og kynningarefnis fyrir nýtt kerfi áfangastaðastjórnunar, sem bar vinnuheitið Fyrirmyndaráfangastaðir í ferðaþjónustu. Auglýsingastofan Brandenburg varð fyrir valinu og afraksturinn var kynntur í dag, Varða.
Fyrstu áfangastaðirnir sem hefja ferli til að verða Vörður eru Gullfoss, Geysir, Þingvallaþjóðgarður og Jökulsárlón.
Með Vörðu verða lögð drög að fyrirmyndaráfangastöðum og verða Vörður áfangastaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.
„Heitið Varða byggir á þeim fjölmörgu vörðum sem finnast í íslenskri náttúru. Vörður eru vel þekktar og hluti af ímynd Íslands. Vörður geyma sögu og arfleifð. Þær eru hlaðnar úr staðarefni, tengjast umhverfinu, vísa veginn í átt að áfangastað og mynda leiðakerfi,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Vörður verða markaðssettar til íslenskra og erlendra ferðamanna og er ætlunin að úr verði þekkt merki sem ferðamenn leita uppi við skipulagningu á ferðalögum sínum. Vörðum er ætlað að leiða ferðamenn áfram á leið sinni um landið og jafnframt að vera öðrum áfangastöðum fyrirmynd um stjórnun, umsjón, skipulag, aðbúnað, þjónustu, náttúruvernd, öryggi og annað sem varðar móttöku ferðamanna.“