DesignTalks 2023 - Odile Decq, arkitekt og borgarskipulagsfræðingur
Odile Decq, arkitekt, borgarskipulagsfræðingur og eigandi Studio Odile Decq, kemur fram á DesignTalks 2023 í Hörpu miðvikudaginn 3. maí.
Ég hef alltaf talið að arkitektúr sé ekki einungis bundinn við ytra byrði byggingarinnar sjálfrar og skipulag á rými innan hennar heldur nái hann einnig til innanhúshönnunar, húsgagna og jafnvel listaverka í rýminu, líkt og arkitektar snemma á 20. öldinni héldu fram.
Odile Decq er franskur arkitekt og borgarskipulagsfræðingur sem á að baki langan og litríkan feril. Hún er þekkt fyrir róttækar og tilraunakenndar aðferðir og hefur einnig verið ötul baráttukona fyrir jafnrétti kynjanna og gegn mismunun í faginu. Odile stofnaði Studio Odile Decq í upphafi níunda áratugsins og árið 2014 stofnaði hún alþjóðlega arkitektaskólann Confluence en hún hefur kennt arkitektúr í aldarfjórðung. Odile hefur hlotið fjölda verðlauna, m.a. Gullna ljónið á arkitektatvíæringnum í Feneyjum árið 1996, Prix Femme Architecte árið 2013, Jane Drew Prize árið 2016 og skömmu síðar var hún heiðruð af Architizer fyrir með “Lifetime Achievement Award” fyrir brautryðjendastarf sitt auk þátttöku sína og framlag í umræðu um arkitektúr.
Í samfélagi þar sem allri framleiðslu hættir til að vera einsleit og án menningarsérkenna hefur Studio Odile Decq ávallt unnið eftir þeirri hugmyndafræði að vera sértæk og einstök í hönnuninni. Með því að spyrja óvæntra spurninga s.s. um tilgang, notkun, efnivið, líkamann, tækni og bragð getur arkitektúr boðið upp á mótsagnakennda sýn á heiminn sem er bæði blíð og alvarleg í senn. Í skapandi vinnuferli stofunnar er hindrunum umbreytt í ávinning samhliða því að mótuð er einstök sýn fyrir hvert verkefni sem byggir á fullkomnustu nútímatækni.
Í byggingum sem Studio Odile Decq hefur hannað hefur arkitektastofan oftar en ekki séð um innanhús- og húsgagnahönnun, með það í huga að samfella sé í rýminu öllu og að verkefnið mæti ólíkum og sértækum þörfum hverju sinni. Stofan einsetur sér að eiga í samstarfi úr ólíkum áttum til þess að hanna og þróa framsæknar og einstakar lausnir fyrir verkefnin, allt frá yfirborði bygginganna til hljóðvistarinnar innanhús.
Hjá arkitektastofunni starfa nú um 15 manns undir stjórn Odile. Hugmyndaferlið snýst um tilraunir sem hún sjálf fylgir eftir. Þess er gætt að alveg frá upphafi hönnunar eigi allir viðeigandi aðilar í samtali þannig að lokaútkoman verði heildræn.
DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.
Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!
DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.