Ofbirta valið í samkeppni um ljósverk á Vetrarhátíð 2022
Reykjavíkurborg í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stóðu fyrir samkeppni um ljóslistaverk á Vetrarhátíð 2022. Niðurstaðan liggur nú fyrir en verkið Ofbirta eftir hönnuðinn og myndlistarkonuna Mörtu Sigríði Róbertsdóttir bar sigur úr býtum og mun umbreyta turni Hallgrímskirkju á hátíðinni sem fer fram dagana 3.-6. febrúar.
Í umsögn dómnefndar um verðlaunatillöguna stendur:
Verðlaunatillagan Ofbirta umbreytir turni Hallgrímskirkju í rismikið undirlag lita og hreyfingar. Verkið er litríkt, lífrænt og rétt eins og jólaljósin lífgar það upp á skammdegið um leið og það er húmorísk nálgun á mannlegt eðli og samfélagið. Verkið, samanstendur, af fimm ólíkum myndbrotum sem vísa í ljósadýrð okkar yfir hátíðarnar, ljósin sem við skreytum borgina með en líka þau sem náttúran býður okkur upp á. Ofbirta kallar síðan fram nýja myndheima sem hægt er að tengja við götulist, norðurljós og óreiðu lífsins.
Marta Sigríður Róbertsdóttir er hönnuður og listamaður sem útskrifaðist sem innanhússarkitekt úr Konunglega Listaháskólanum í Haag, þar sem hún kannaði rýmislausa framtíðarheima í lokaverkefninu sínu. Hún hefur unnið við sýningarhönnun, módelsmíði og gerð vídeóverka bæði í Hollandi og á Íslandi, ásamt því að stýra rannsóknarverkefni um breyttar vinnuaðstöður vegna heimsfaraldurs. Í verkum sínum leitast Marta við að kanna og endurskapa rými með hjálp stafrænnar tækni, og yfirstíga þannig efnislegar takmarkanir raunveruleikans.
Nánar um verkið frá listamanninum:
Í rúman mánuð yfir jól og áramót, mótmæla Íslendingar skammdeginu með skreytingu húsa og umhverfis. Ljósadýrðin gleður en það sem gleður jafnvel meira er frumleikinn sem er falinn í skreytingargleðinni, og hugleiðingar um persónugerðir einstaklinga með val á litum á jólaseríum og skrauti. Fyrir annars hlédræga þjóð er þessi tími sköpunar og metnaðar magnaður. Ljós í görðum verða að sínum eigin listaverkum þegar þau blandast íslensku veðráttunni, feykjast til, speglast í hvítum snjó og leysast upp þegar augun eru pírð til að verjast vindinum og leið til vinnu dimma morgna.
Verkið Ofbirta reynir eftir bestu getu að fanga þessa árstíðarbundnu stemningu þegar hversdagsleikinn verður að listaverki. Hallgrímskirkja, með sinn sérstæða arkitektúr sem gefur beina tilvísun í mikilfengleika náttúru Íslands, stendur í rótgrónu og heimilislegu hverfi í Reykjavík. Samskip stórbrotins arkitektúrs og lágreista timburhúsa er innblásturinn undir því hvernig ljóslistaverkið dansar á kirkjunni sjálfri. Verkið mun spila í takt við einkennandi strúktúra kirkjunnar og lýsa upp valda hluta, en jafnframt teygja úr sér á náttúrulegri hátt.
Ofbirta er samansett af fimm mismundandi myndbrotum sem öll eru í kringum mínútu í senn. Verkin eru búin til í þrívíddarforriti þar sem ljósbrotum er stjórnað með tilviljunarkenndum hreyfingum, svo að útkoman, rétt eins og í raunveruleikanum, verður aldrei fullkomlega fyrirsjáanleg.
Í dómnefnd sátu Ólöf Kristín Sigurðardóttir forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur, Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður og verkefnastjóri hjá Skipulags- og framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar og Marcos Zotes, arkitekt Basalt arkitektar AÍ
Keppnisritari og trúnaðarmaður var Gerður Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.