Vatnið tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna
Sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, hefur verið tilnefnd til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022. Gagnvirk miðlun í sýningunni er hönnuð og unnin af Gagarín og Art+Com.
Sýningin var opnuð í Perlunni í desember 2018 og veitir á nýstárlegan hátt innsýn í eina mikilvægustu auðlind landsins, ferskvatnið. Sýningarhönnun var í höndum Þórunnar S. Þorgrímsdóttur.
Gagarín hannaði og framleiddi þrjár gagnvirkar innsetningar fyrir sýninguna sem hlutu hin virtu evrópsku Red Dot „Best of the best“ verðlaun í flokknum „viðmótshönnun og notendaupplifun“ árið 2019:
- Fossar: myndrænt hljóðverk þar sem 773 fossanöfn á Íslandi mynda háan, fallandi foss.
- Mælar: gagnvirk innsetning sem sýnir rennsli og vatnsmagn mismunandi áa á Íslandi í rauntíma.
- Vistrýnir: gagnvirk miðlunarstöð þar sem gestir geta kafað ofan í mismunandi votlendissvæði Íslands með þar til gerðum sjónaukum til að kanna lífið sem þar finnst.
Auk þess voru innsetningarnar þrjár verðlaunaðar hjá SEGD Global Design Awards 2019 og tilnefnd til European Design Awards 2019.
Í ár keppa 60 evrópsk söfn til úrslita í ýmsum flokkum sem verða tilkynnt í Tartu, Eistlandi í byrjun maí 2022.
Skoða tilnefnd verkefni.
Náttúruminjasafn Íslands