Öll félög hönnuða og arkitekta með sýningu eða viðburð á HönnunarMars í maí 2021
Öll fagfélög hönnuða og arkitekta standa fyrir sýningum eða viðburðum á HönnunarMars í maí 2021.
HönnunarMars er sannarlega staður þar sem hönnunarsamfélagið kemur saman þvert á greinar og kynnir allt það áhugaverða sem er að eiga sér stað hér á landi. Á HönnunarMars í ár standa öll fagfélög hönnuða og arkitekta að viðburði eða sýningu á hátíðinni og er hægt að skoða hvern viðburð fyrir sig hér fyrir neðan.
Arkitektafélag Íslands (AÍ), Félag Íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) og Félag húsgagna-og innanhúsarkitekta (FHI)
Arkitektafélag Íslands (AÍ), Félag Íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) og Félag húsgagna-og innanhúsarkitekta (FHI) sameina krafta sína á HönnunarMars í ár og halda málstofu 19. maí um heilsu og hönnun undir heitinu Er hægt að hanna heilsu?.
Fatahönnuðafélag Íslands
Fatahönnunarfélag Íslands býður til afhendingu Indriðaverðlaunanna 2020 og umræðufundar um stöðu og framtíð Íslenskrar fatahönnunar á Hönnunarmars 2021.
FÍT
FÍT Keppnin er verðlaunahátíð grafískrar hönnunar á Íslandi. Hátíðin verður rafræn í ár í gegnum streymi. Verðlaunahátíðin var send út í streymi þann 14. maí á síðu FÍT
Félag vöru- og iðnhönnuða
Dómnefnd á vegum Félags vöru-og iðnhönnuða valdi fjórtán hönnuði og hönnunarteymi til að vinna hugmynd að frumgerð að loknu opnu kalli. Afrakstur þriggja vikna hönnunarferlis verðursýndur í Ásmundarsal á HönnunarMars næstkomandi. Á meðan sýningunni stendur, eða þann 23. maí næstkomandi, verður blásið til uppboðs á frumgerðunum í húsakynnum Ásmundarsals, en allur ágóði rennur til hönnuða hugmyndanna.
Félag íslenskra gullsmiða
Undanfarin ár hafa útskrifast nokkuð stór hópur gullsmiða og að þessu sinni vill Félag íslenskra gullsmiða beina kastljósinu að þeim og gefa þeim tækifæri á að láta ljós sitt skína. Yfirskrift sýningar verður „Óður til Víravirkis“ í víðasta skilningi þess orðs.
Leirlistafélag Íslands
Áhugaverðar innsetningar sem dreifast víða um borgina og út á land. 11 leirlistamenn sýna snagana í rýmum bæði úti og inni, miðpunktur sýningarinnar verður í Rammagerðinni á Skólavörðustíg. Þar verða allar upplýsingar ásamt korti aðgengilegar ásamt lifandi leirvinnustofu í glugga verslunarinnar.
Textílfélagið
Samsýning meðlima Textílfélagsins þar sem þátttakendur velta fyrir sér gerð og hlutverki bóka út frá textíl.
Með verkum sínum leitast þátttakendur við að leiða áhorfandann í gegnum sögur með því í að kryfja efni niður í smáatriði og afhjúpa dulin augnablik. Hversu langt er hægt að teygja textílform?