Ragnheiður og Nils ný í stjórn HönnunarMars
Ragnheiður Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar og Nils Wiberg, hönnuður hjá Gagarín eru nýijr stjórnarmeðlimir HönnunarMars og hafa þegar hafið störf. Anton Jónas Illugason er nýr formaður stjórnar hátíðarinnar.
Ragnheiður hefur starfað sem framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar frá árinu 2016 og með víðtæka reynslu á sviði markaðsmála og nýsköpunar. Hún er með meistaragráðu í Alþjóðaviðskiptum og Bs í viðskiptafræði. Ragnheiður brennur fyrir nýsköpunarverkefnum af breiðum toga og er spennt að takast á við fjölbreytt verkefni á sviði stærstu hönnunarhátíðar landsins.
Nils er gagnvirkni listamaður og hönnuður frá Svíþjóð sem starfar fyrir Gagarin, hönnunarstofa. Nils er með meistarapróf í mannlegum tölvusamskiptum og hugrænum vísindum. Hann hefur undanfarinn áratug einbeitt sér að stafrænum lausnum á sviði sýningarhönnunar með áherslu á mannlega nálgun.Meðal verka sem Nils hefur verið hluti af hér heima er Lava museum á Hvolsvelli, sýningin Orka til framtíðar, við Ljósafossstöð og sýningin Kraftar náttúrunnar í Perlunni. Hann hefur hlotið ásamt Gagarín hin eftirsóttu Red Dot verðlaun í tvígang.
Auka þeirra sitja í stjórn HönnunarMars þau Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða, Sigrún Jóna Norðdahl frá Leirlistafélagi Ísland og Anton Jónas Illugason, frá FÍT sem jafnframt er nýr formaður stjórnar.
HönnunarMars 2023 fer fram í fimmtánda sinn dagana 3. - 7. maí og breiðir úr sér um Reykjavík og nágrenni með fjölbreyttum sýningum og viðburðum sem endurspegla grósku og nýsköpun hönnunarsamfélagsins.
Frestur til að sækja um þátttöku á hátíðinni rennur út á miðnætti í kvöld, 29. september.