Rán Flygenring hlýtur barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs
Mynda- og rithöfundurinn Rán Flygenring hlaut barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndabókina Eldgos sem gefin var út í fyrra af bókaforlaginu Angústúru.
Verðlaunin fóru fram við hátíðlega athöfn í gærkvöldi í Osló og var höfundur viðstöff afhendingu. Sjá má viðtal við Rán hér.
Rán lauk BA gráðu í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands árið 2009 og hefur sinnt margvíslegum hönnunar- og teiknistörfum á ferlinum; m.a. var hún grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi á vinnustofu Atla Hilmarssonar á árunum 2009-2010 og Hirðteiknari Reykjavíkurborgar árið 2011 áður en hún lagðist í tæplega áratugarlangt flakk um heiminn.
Rán starfar nú sem sjálfstætt starfandi mynd- og rithöfundur, listamaður og hönnuður í Reykjavík. Hún hefur gefið út bækur með eigin teikningum og texta og einnig unnið bækur í félagi við aðra. Bækur Ránar hafa komið út á ensku og þýsku, auk íslensku. Rán hefur hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga til verðlauna fyrir verk sín, bæði á Íslandi og erlendis
Rökstuðningur dómnefndar:
"Þótt Íslendingar búi á eldfjallaeyju eru eldgos ekki daglegt brauð og sjaldgæft að þau séu sjáanleg frá mannabyggð eða í göngufæri. Snemma árið 2021 hófst samt gos nærri helsta þéttbýlissvæði landsins og vakti óttablandna hrifningu hjá bæði börnum og fullorðnum. Fólk flykktist að gosstöðvunum og svæðið varð fljótt svo þétt setið að í fjarlægð gæti það hafa minnt á lúsugan koll.
Í bókinni Eldgos er uggurinn sem þessi atburður vakti afbyggður með hjálp hversdagsógna sem okkur klæjar undan. Við fylgjumst með degi í lífi Kaktusar. Þennan dag tekur mamma hans, Brá, Kaktus með sér í vinnuna til að halda honum frá lúsafaraldri í skólanum. Brá starfar sem leiðsögumaður og þau leggja af stað með fulla rútu af ferðamönnum og skoða fjöll og náttúrufyrirbrigði. Kaktus kemur skyndilega auga á nokkuð óvenjulegt út um gluggann: eldgos! Brá tekur skyndiákvörðun og hleypir ferðalöngunum úr rútunni og saman ganga þau í átt að gosstöðvunum með eld í augunum.
Myndirnar sem prýða bókina eru fullar af húmor og forvitnilegum smáatriðum. Þær flæða eins og biksvart gjall í japönsku bleki eða sem glóandi hraunfljót í litríkum forstofudreglum og sýna náttúruna á bæði raunsæjan og ævintýralegan hátt. Persónur bókarinnar eru teiknaðar svarthvítar, en náttúran í lit. Rauðglóandi hraunið stígur þannig fram sem sjálfstæð persóna og andstæðan milli svarthvítra sögupersóna og litaðrar náttúru minnir okkur um leið á að við erum gestir hér á jörðu. Alveg eins og ferðamennirnir í bókinni.
Eldgos kann í fyrstu að virðast hress og einföld saga um mæðgin og óblíða náttúru, en hún ristir mun dýpra. Frásögnin vekur með okkur margslungnar hugleiðingar um fordóma og fífldirfsku, ógn og ótta og mikilvægi þess að bera ábyrgð á sjálfum sér gagnvart náttúrunni. Brá og Kaktus reyna árangurslaust að bjarga tófu sem hefur orðið innlyksa á hól sem stendur úti í glóandi hrauni. Þá berast bjargvættir úr óvæntri átt. Kaktus reynist vera grálúsugur og lýsnar koma stökkvandi úr hári hans, flykkjast yfir á hólinn „eins og þaulæfð, pínulítil björgunarsveit“ og bjarga tófunni. Rán teflir saman öfgum tilfinninga sem vakna við að horfa inn í jörðina og sjá fjöllin verða til, annars vegar og svo hins vegar þeim sem hversdagsógn lúsafaraldursins vekur. Er tilfinningin um berskjöldun og valdaleysi kannski svipuð, þótt ógnin sé af ólíkum meiði?
Í Eldgosi færist sjónarhornið sífellt milli hins ægistóra og hins agnarsmáa og gæðir þannig einfaldan söguþráðinn spennu og lífi. Í lok bókarinnar hafa lýsnar tekið sér bólfestu í feldi tófunnar, þar sem þær búa í sátt og samlyndi við hýsil sinn. Kannski má lesa út úr því von um að mannfólk finni leið til að búa hér á jörð – ekki eins og faraldur, heldur í sátt við náttúruna."