Reglugerð um hlutdeildarlán og umsögn Arkitektafélags Íslands
Arkitektafélag Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við drög að reglugerð um hlutdeilarlán.
Hlutdeildarlán eru hugsuð sem nýtt úrræði fyrir tekju-og eignaminni einstaklinga og eru veitt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Félagsmálaráðuneytið birti 6. október sl. drög að reglugerð um hlutdeildarlán til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Í kjölfarið var stofnaður vinnuhópur af áhugasömum félagsmönnum AÍ til að rýna í reglugerðina og koma með athugasemdir.
Í vinnuhópnum eru Hildur Gunnarsdóttir, Anna María Bogadóttir, Sigríður Maack og Guðlaug Erna Jónsdóttir. Eins kom Borghildur Sturludóttir að vinnu hópsins sem og Gerður Jónsdóttir, sem hélt utan um vinnuna. Vinnuhópurinn vann umsögn um drögin en í þeim eru lagðar fram alvarlegar athugasemdir við reglugerðina í núverandi mynd. Vinnuhópur í nafni AÍ sendi inn umsögn um málið inn í samráðsgátt 20. október sl.
Umsögn AÍ er margþætt en hér má telja upp helstu punkta:
- AÍ fagnar stuðningi ríkisins á húsnæðismarkaði.
- Stórtækt inngrip inn í virkan fasteignamarkað en greiningum á félagslegum, umhverfislegum, markaðslegum og umhverfislegum áhrifum aðgerðanna er verulega ábótavant.
- Íbúðir sem falla undir hluteildarlán á höfuðborgarsvæðisinu eru skilyrtar við nýjar íbúðir, sem kemur í veg fyrir búsetuval fólks og vinnur gegn félagslegri blöndun.
- Áhersla á nýja uppbyggingu getur auk þessu unnið gegn sjálfbærni og umhverfissjónarmiðum með því að útiloka betri nýtingu núverandi innviða, þ.m.t. núverandi húsnæðis.
- Skilgreining á hugtakinu hagkvæmt húsnæði sem lögð er til grundvallar er mjög óljós og ómarkviss. Tíðrætt er um hagkvæmni í drögunum en ekki er nánari skilgreining á því hugtaki en krónufjöldi á fermetra.
- Engin áhersla er lögð á grunngæði hins hagkvæma húsnæðis. Frekar er girt fyri gæði sem litið er á sem kostnaðarauka en ekki hluta af hagkvæmni húsnæðis.
- Hvergi er minnst á hlutverk arkitekta í ferlum til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði.
- Drögin virðast að mörgu leyti vera í ósamræmi og jafnvel andstöðu við samþykktir og skuldbindingar ríkisstjórnar Íslands er varða félagslega og umhverfislega þætti hins manngerða umverfis, til að mynda Menningarstefnu í mannvirkjagerð, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og Parísarsáttmálann
Umsögn AÍ vakti athygli fjölmiðla og hér er frétt um umsögnina sem birtist á vef Vísis í dag, 28. október 2020, sömuleiðis má hér sjá viðtal við SigríðiMaack, arkitekt og stjórnarkona í Arkitektafélagi Íslands í kvöldfréttum Stöðvar 2 28. október.
Vinnuhópur AÍ stefnir á að vekja frekari athygli á málinu. Frekari upplýsingar um vinnu hópsins munu birtast síðar.